Það styttist óðum í Golden Globes-verðlaunahátíðina sem fer fram í Los Angeles þann 7. janúar næstkomandi. Árið hefur verið viðburðarríkt í Hollywood og því nóg af spennandi tilnefningum.
Barbie trónir á toppnum en hún hefur fengið alls níu tilnefningar á meðan Oppenheimer hefur fengið átta tilnefningar. Síðastliðið sumar voru kvikmyndirnar tvær eftirminnilega frumsýndar á sama degi og hafa notið gríðarlegra vinsælda um allan heim.
Því næst koma kvikmyndirnar Killers of the Flower Moon og Poor Thing með sjö tilnefningar hvor. Þá hafa sjónvarpsþættir á borð við Succession, Only Murders in the Building og The Crown einnig hlotið tilnefningar.
Á meðal tilnefndra leikara eru svo stórstjörnur á borð við Emmu Stone, Leonardo DiCaprio, Cillian Murphy og Da'Vine Joy Randolph. Gjarnan er litið svo á að sigur á Golden Globe greiði veginn fyrir óskarsverðlaunatilnefningar, en Óskarsverðlaunin verða afhent sunnudaginn 10. mars 2024.
Um tíma var útlit fyrir að Golden Globes-verðlaunahátíðinni yrði ekki sjónvarpað í ár, en miklar deilur hafa verið vegna samtakanna á bak við hátíðina, Hollywood Foreign Press Association, sem hafa verið ásökuð um spillingu og skort á fjölbreytileika innan samtakanna.
Í kjölfar deilnanna áttu framleiðendur því í erfiðleikum með að finna miðil sem var opinn fyrir því að sjónvarpa hátíðinni. Samkvæmt BBC hefur nú verið gerður samningur við CBS, sem sjónvarpar einnig Grammy-verðlaunahátíðinni, og verður hátíðinni einnig streymt á Paramount+.
Enn hefur ekki verið tilkynnt hverjir verða kynnar á verðlaunahátíðinni, en á undanförnum árum hafa stórstjörnur á borð við Ricky Gervais, Jerrod Carmichael, Seth Mayers, Tina Fey og Amy Poehler verið kynnar á hátíðinni.