Þáttaröðin Heima er best er tilnefnd til handritaverðlauna Nordisk Film & TV Fond 2024. Verðlaunin verða afhent á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í janúar. Fimm þáttaraðir frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð eru tilnefndar til verðlaunanna.
Aðalhöfundur og leikstjóri Heima er best er Tinna Hrafnsdóttir, sem skrifaði handritið ásamt Ottó Geir Borg og Tyrfingi Tyrfingssyni. Þættirnir eru saga af fjölskylduátökum í íslenskum samtíma. Þegar ættfaðir fellur frá taka við nýir tímar í lífi þriggja ólíkra systkina. Rótgrónu fjölskyldufyrirtæki og sumarhúsi, sem reist var frá grunni, þarf að skipta upp og finna farveg út frá nýjum viðmiðum og gildum. En það sem átti að sameina sundrar, og vandamálin sem koma upp þegar systkinin fara að deila sín á milli um arfleifð föðurins verða ekki flúin.
Þættirnir voru frumsýndir í sjónvarpi Símans í nóvember.