Kvikmyndin Volaða Land eftir Hlyn Pálmason er á stuttlista Akademíunnar fyrir Óskarsverðlaunin í flokki alþjóðlegra kvikmynda árið 2024. Aðeins eru 15 myndir á stuttlistanum en kvikmyndir frá 88 löndum voru sendar inn.
Tilkynnt verður um hvaða fimm myndir verða að lokum tilnefndar þann 23. janúar 2024. Óskarsverðlaunahátíðin fer fram í 96. sinn sunnudaginn 10. mars á næsta ári.
Myndin Volaða Land segir frá ungum dönskum presti, Lucas, sem heldur til Íslands undir lok 19. aldar í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Óvægin náttúruöflin hafa snemma áhrif á ferðalagið og samskipti nýlenduherrans við íslenska sveitamanninn Ragnar ganga ekki sem skyldi vegna tungumálaerfiðleika og menningarmunar. Á ferðalaginu og í leit sinni að æðri mætti þarf presturinn að kljást við sjálfan sig andspænis náttúrunni. Löngun hans til yfirráða gagnvart henni verður honum að falli.
Ekki er langt síðan að framlag Íslands komst á stuttlista í flokki alþjóðlegra kvikmynda. Fyrir tveimur komst kvikmyndin Dýrið á stuttlistann en hlaut að lokum ekki tilnefningu.