Síðasta drottningin í bili

Margrét Þórhildur drottning Danmerkur kveður sem drottning í janúar.
Margrét Þórhildur drottning Danmerkur kveður sem drottning í janúar. AFP

Margrét Þórhildur Danadrottning tilkynnti á gamlársdag að hún myndi stíga til hliðar sem drottning Danmerkur. Friðrik krónprins verður því kóngur þann 14. janúar en þá eru 52 ár frá því að faðir Margrétar, Friðrik IX. lést og hún varð drottning aðeins 32 ára gömul. Margrét er þekkt fyrir að vera mikill persónuleiki, bæði listræn og ósérhlífin. Hún vakti auk þess mikla athygli fyrir að reykja og tróna yfir öðrum enda afar hávaxin.

Margrét Þórhildur drottning tilkynnti á gamlársdag að hún myndi hætta …
Margrét Þórhildur drottning tilkynnti á gamlársdag að hún myndi hætta sem drottning þann 14. janúar næstkomandi. AFP

Sat lengst allra þjóðhöfðingja Danmerkur

Margrét Þórhildur náði að vera þjóðhöfðingi lengur en allir fyrrum þjóðhöfðingjar Danmerkur en er aðeins önnur drottning Danmerkur í sögu þess. Margrét Þórhildur var auk þess síðasta ríkjandi drottningin en nú ríkja aðeins kóngar og verður þannig enn um sinn. Næsta drottning verður líklegast Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar en Karl Gústaf XVI. er 77 ára gamall. Aðrar krónprinsessur í Evrópu eru þær Katarína Amalía í Hollandi, Leonóra frá Spáni og Elísabet frá Belgíu en feður þeirra eru á aldrinum 55-63 ára og gætu því setið sem kóngar í áratugi í viðbót ef heilsan leyfir. 

Hinrik og Margrét á svölum Amalíuborgar á 76 ára afmæli …
Hinrik og Margrét á svölum Amalíuborgar á 76 ára afmæli drottningar. AFP

Krúnan alltaf í fyrsta sæti

Margrét Þórhildur hefur alla tíð talað um í viðtölum hversu mikilvæg danska krúnan sé henni og margir töldu ólíklegt að hún myndi nokkurn tímann stíga til hliðar.

„Danmörk er það allra mikilvægasta. Ég hef aldrei gælt við þá hugmynd að setja hjónabandið ofar krúnunni,“ sagði hún eitt sinn en hún var gift Hinriki prins en hann lést 2018. Þau áttu tvo syni saman, þá Friðrik og Jóakim en Margrét hefur viðurkennt að hafa ekki verið besta móðir í heimi.

„Þeir voru mjög ung­ir þegar ég varð drottn­ing og ég gat ekki varið eins mikl­um tíma með þeim og ég hefði kosið eða þeir hefðu kosið. Ég las fyr­ir þá á kvöld­in og þá átt­um við góðar stund­ir sam­an en ég geri mér grein fyr­ir því að ég var ekki besta móðir í heimi,“ sagði hún í heim­ild­ar­mynd sem gerð var í til­efni af 50 ára drottn­ing­araf­mæli hennar. 

Margrét Þórhildur hefur ríkt lengst allra danskra þjóðhöfðingja í 1200 …
Margrét Þórhildur hefur ríkt lengst allra danskra þjóðhöfðingja í 1200 ára sögu ríkisins. AFP

Listræn drottning sem málar og hannar

Margrét talar fimm tungumál og hefur sinnt ýmiss konar listsköpun af mikilli ástríðu hvort sem um er að ræða mynd­list, tex­tíll, klippi­mynd­ir eða út­saum­ur. Hún er til dæmis heiðursmeðlim­ur danskra leik­mynda­hönnuða og á að baki margra ára vinnu sem leik­mynda­og búningahönnuður í heimi danskra sviðslista. Nú síðast hannaði hún búninga og leikmynd fyrir myndina Ehrengard sem sýnd var á Netflix. Þá hafa málverk hennar verið sýnd í söfnum.

Nýr kóngur og drottning taka við í Danmörku þann 14. …
Nýr kóngur og drottning taka við í Danmörku þann 14. janúar 2024. Mary verður fyrsta drottning sem er af áströlsku bergi brotnu. AFP

Vildi nútímavæða konungsfjölskylduna

Mikið mæddi á dönsku konungsfjölskyldunni þegar Margrét Þórhildur tilkynnti um að börn Jóakims Danaprins skyldu missa titla sína sem prins­ar og prins­ess­ur. Var þessi ákvörðun tekin til þess að börn­in nytu meira frels­is í framtíðinni og fengu fleiri tæki­færi, án þess að vera háð kon­ungs­fjöl­skyld­unni. Þá fannst drottningunni þetta fyrirkomulag nútímavæða fjölskylduna og vera í takt við það sem tíðkast nú í Evrópu. Þessi ákvörðun fór hins vegar mjög illa ofan í Jóakim prins og fjölskyldu hans og var ansi stirt á milli þeirra um tíma.

Hávaxin og keðjureykjandi

Margrét Þórhildur trónir yfir öðrum drottningum að minnsta kosti hvað hæð varðar en hún er með hávöxnustu konungsbornu konunum í Evrópu enda um 182 cm á hæð. Þá vakti Margrét Þórhildur einnig mikla athygli fyrir að vera keðjureykjandi drottning. Hún byrjaði að reykja 17 ára en það voru foreldrar hennar sem buðu henni fyrstu sígarettuna. Hún er þó sögð hafa hætt að reykja fyrir ári síðan en þá þurfti hún að gangast undir aðgerð á baki. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir