Andrés prins er sagður hafa tekið þátt í kynsvalli með stúlkum undir lögaldri þegar hann dvaldi á heimili Jeffrey Epsteins. Þetta kemur fram í nýbirtum dómsskjölum þar sem greint er frá fólki sem tengdist kynferðisbrotamanninum og auðjöfrinum Jeffrey Epstein.
Andrés prins er nefndur 69 sinnum í skjölunum sem telja um 900 blaðsíður.
Í skjölunum kemur fram að kynlífsþræll Epsteins, sem heitir í skjölunum Jane Doe 3, var skipað að hafa kynmök við Andrés prins á meðan á kynsvalli stóð á eyju Epsteins í Karabíska hafinu. Þar voru fjölmargar stúlkur undir lögaldri. Þá var henni einnig gert að stunda kynlíf með honum í Lundúnum og í New York. Henni var sagt að gera allt sem Andrés prins vildi. Nafn Jane Doe 3 birtist ekki í skjölunum en Virginia Giuffre sagðist síðar hafa þurft að sofa hjá prinsinum þrisvar sinnum.
Þá er Andrés prins einnig sagður hafa lagt hönd á brjóst Johonnu Sjoberg þegar hópmynd var tekin af þeim saman með brúðu.
Fleiri eru nefndir í skjölunum eins og til dæmis Bill Clinton sem sagður er „vilja þær ungar“. Þá eru þar einnig nefndir menn á borð við Stephen Hawking sem sagður er hafa tekið þátt í kynsvalli sem og lögfræðingurinn Alan Dershowitz. Dershowitz hefur hins vegar fagnað birtingu skjalanna því þá verði loks ljóst að hann hafi ekkert sér til saka unnið.