Leikkonan Lisa Bonet sótti um skilnað frá eiginmanni sínum, leikaranum Jason Momoa í byrjun vikunnar. Skilnaðurinn kemur ekki á óvart en tvö ár eru síðan hjónin greindu frá því að þau væru farin hvort í sína áttina.
Fram kemur á vef The Hollywood Reporter að ástæða skilnaðarins sé óásættanlegur ágreiningur. Einnig kemur fram að þau hafi hætt saman í október 2020 en það er meira en ári áður en þau greindu frá sambandsslitunum opinberlega. Hjónin skilja sátt og krefjast þau ekki fjárstuðnings frá maka, þau hafa einnig komist að niðurstöðu um eignaskiptingu. Þau deila forræði yfir börnum sínum sem eru 16 ára og 15 ára.
Momoa er 44 ára og Bonet er 56 ára. Hjónin kynntust árið 2005 en giftu sig ekki fyrr en árið 2017. Þetta var fyrsta hjónaband Momoa en annað hjónaband Bonet sem var áður gift tónlistarmanninum Lenny Kravitz. Á Bonet leikkonuna Zoë Kravitz með fyrri eiginmanni sínum.