Sarah Ransome segist hafa verið þvinguð til þess að draga til baka fullyrðingar sínar um upptökur um kynlífsleiki valdamanna á heimili Epsteins. Þetta sagði hún í viðtali við Good Morning Britain en stendur nú við fyrri orð sín.
Ransome segist hafa dregið til baka ummæli um upptökur því henni hafi verið hótað af Maxwell og „öðrum“.
Í viðtalinu segir hún það ekkert leyndarmál að gerðar hafi verið upptökur.
„Þessar upptökur eru til. Fólkið sem veit um þær er örugglega mjög hrætt um að þær komist í dreifingu,“ sagði Ransome.
Aðspurð um faldar myndavélar á eyju Epsteins sagði Ransome að það hafi ekki verið neitt leyndarmál að allt var tekið upp. Á heimilum hans voru rándýrar eftirlitsmyndavélar.
„Mörg fórnarlömb hafa komið fram og staðfest frásögn mína og annarra. Ég hef einnig horft á myndskeiðin á skrifstofunni hans. Þegar ég var hjá Epstein þá var ég reglulega minnt á hvað myndi gerast fyrir mig og fjölskyldu mína ef ég myndi einhvern tímann stíga fram.“
Nú segist Ransome vera reiðubúin til þess að bera vitni fyrir dómstólum um það sem hún sá úr eftirlitsmyndavélum, valdamikla karlmenn að hafa kynmök við aðrar stelpur.
Þá er bandaríska alríkislögreglan undir þrýstingi að birta allar ljósmyndir sem teknar voru af sönnunargögnum sem fundust við húsleit á heimilum Epsteins á sínum tíma.
Í nýbirtum skjölum um Epstein kemur fram að lögfræðiteymi Jeffrey Epstein hafi reynt að grafa undan áreiðanleika Söruh Ransome, þar sem Ransome hafi á einum tímapunkti fullyrt að hún ætti þessar upptökur en svo seinna meir dregið þá staðhæfingu til baka. Lögfræðingar Epsteins sögðu að þetta sýndi fram á að Ransome skorti trúverðugleika.