Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona á K100 og íþróttakona, heiðraði eiginmann sinn, tónlistarmanninn Stefán Jakobsson, með fallegri færslu á samfélagsmiðlinum Instagram nýverið. Tilefnið, 44 ára afmæli söngvarans um helgina.
Hjónakornin byrjuðu saman árið 2022. Kristín Sif sagði frá því í morgunþættinum Ísland vaknar í júní það ár að hún væri komin á fast en gaf þó ekki upp hver sá heppni væri. Parið hélt því þó ekki leyndu lengi og birti mynd af sér skömmu síðar að njóta lífsins og fagna ástinni í Berlín.
Stefán og Kristín gengu í það heilaga í september á síðasta ári við glæsilega athöfn, en sú fór fram utandyra í Húsnestá sem er lítil „eyja“ við Mývatn en landið er í eigu fjölskyldu Stefáns.
„Besti vinur minn og eiginmaður átti afmæli í gær. Það er rosa auðvelt að segja mikið af góðu um hann. Ég vakna alla daga þakklát fyrir hann og elska hann meira hvern dag sem líður, þegar ég held að það sé ekki séns að elska hann meira þá elska ég hann bara meira. Hvernig er annað hægt?
Hann hefur óteljandi góða kosti og þar má nefna að hann er æðislega góður eiginmaður, pabbi, ógeðslega fyndinn, sniðugur og uppátækjasamur. Það er auðvelt að gleðja hann og okkur leiðist aldrei, enda alltaf eitthvað brall í gangi.
Hversdagurinn er litríkur og bjartur með honum Stefáni, og að hans mati er mánudagur besti dagur vikunnar sem sýnir svo vel hvaða jákvæða góða mann hann hefur að geyma. Á meðan flestir kvarta undan mánudögum þá velur hann að gera þá að besta deginum.
Stefán gerir heiminn betri með kærleika sínum og góðmennsku.
Takk fyrir að elska mig eins og þú gerir, ég elska þig skilyrðislaust, alla daga það sem eftir er ástin mín. Til hamingju með daginn þinn,“ skrifaði Kristín Sif til eiginmanns síns í tilefni dagsins.