Fréttir höfðu borist af því undir lok síðasta árs að leikaralið Friends myndi mögulega koma saman að nýju á Emmy-verðlaunahátíðinni til að votta föllnum félaga sínum, Matthew Perry, virðingu.
Vinahópurinn lét þó ekki sjá sig á verðlaunahátíðinni á mánudag og sögðu framleiðendur hátíðarinnar að fráfall Perry væri leikaraliðinu enn ferskt í minni og að þau væru enn að takast á við þennan mikla missi.
Perry var minnst í minningarmyndbandi (e. In Memoriam) á verðlaunahátíðinni ásamt fleirum úr skemmtanaiðnaðinum og birtist falleg mynd af leikaranum í lokin sem hlaut mikið lófaklapp. Tónlistarmaðurinn Charlie Puth spilaði undir og flutti einstaka útgáfu af titillagi Friends, I´ll be there for you, þegar myndin af Perry birtist á skjánum.
Gamanleikarinn fannst látinn 28. október síðastliðinn, 54 ára gamall.