Diljá Pétursdóttir söngkona varð landsfræg í fyrra þegar hún keppti í Eurovision. Nú leikur hún aðalhlutverk í Gestum, nýrri íslenskri þáttaröð sem sýnd verður í Sjónvarpi Símans Premium. Ásgeir Sigurðsson leikur á móti henni en fyrsti þáttur fer í loftið 14. febrúar.
Gestir fjalla um Adam og Eydísi sem eru ungt fólk á krossgötum. Þau kynnast í gegnum stefnumótaforrit og þegar þau vakna daginn eftir fyrstu kynni kemur í ljós að þau hafa víxlast á líkömum. Saman þurfa þau að hjálpast að og finna leiðir til að verða aftur þau sjálf áður en það verður um seinan.
Þættirnir snerta á viðfangsefnum sem hafa verið í brennidepli í samfélaginu eins og kynjahlutverkum, tækni, samskiptum kynjanna og andlegri líðan og gefa yngri kynslóðinni rödd í sjónvarpi og sýna að það er í lagi að vera týndur um skeið og að vera ekki búinn að finna sína hillu í lífinu eins og aðalsöguhetjurnar ganga í gegnum.
„Það er alltaf spennandi að gefa verkefnum frá upprennandi framleiðslufyrirtækjum tækifæri líkt og með LJÓS Films. Hér er á ferðinni ungt og upprennandi fólk sem er stútfullt af hugmyndum og sköpunarkrafti sem vonandi talar beint til Z kynslóðarinnar,“ segir Birkir Ágústsson dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Símanum.
Gestir byggja á „body switch comedy“ þema líkt og mörg þekkja úr kvikmyndinni Freaky Friday og fleirum þar sem aðalpersónur víxlast á líkömum.