Einn höfundur hætti við þátttöku í Söngvakeppni sjónvarpsins. Það kemur þó ekki niður á keppninni í ár. Fjöldi tónlistarfólks mótmælti þátttöku Íslands í Eurovision í ár í ljósi þess að Ísrael verður með í keppninni.
„Ég get staðfest að einn höfundur sem var valinn til þátttöku afþakkaði það boð í lok árs. En það verða 10 lög í keppninni samt, eins og áður.“ Þetta kemur fram í svari Rúnars Freys Gíslasonar, framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar, þegar mbl.is spurði út í hvort einhverjir listamenn hefðu hætt við þátttöku.
Á laugardaginn kemur í ljós hvaða þátttakendur taka þátt í Söngvakeppninni. Í gær greindi Stefán Eiríksson útvarpsstjóri frá því að tengsl milli Söngvakeppninnar og Eurovison hefðu verið rofin. Það er að segja, það væri ekki búið að taka endanlega ákvörðun um hvort Ísland tekur þátt í Eurovison sem fram fer í Svíþjóð í maí.
„Ákvörðunin sem að síðan verður tekin er að sjálfsögðu ákvörðun Rúv og við munum gera það, eins og alltaf, í samráði við viðkomandi flytjanda og lagahöfund,“ segir Stefán í viðtali við mbl.is í dag, miðvikudag.