Ísland hefur tekið risastórt stökk í veðbönkum fyrir Eurovision.
Þykir framlag Íslands nú mun líklegra til sigurs, ef marka má þá veðmálastuðla sem teknir eru saman á vefnum EurovisionWorld.
Þar er Íslandi nú spáð 8. sæti í keppninni, en byggt er á þeim sigurlíkum sem öll helstu veðmálafyrirtækin gefa framlagi Íslands að þessu sinni.
Ísland skipaði 18. sæti á sama lista í gær og 20. sætið daginn þar áður.
Þetta stökk Íslands vekur ekki síst athygli fyrir þær sakir að ekki er enn ljóst hvert framlag Íslands verður í ár. Þá hefur heldur ekki verið greint opinberlega frá þeim tíu sem taka munu þátt í söngvakeppni sjónvarpsins.
Þó greindi ríkisútvarpið sjálft frá því fyrr í kvöld, og hafði eftir heimildum eigin fréttastofu, að Palestínumaðurinn Bashar Murad yrði einn af umræddum tíu keppendum söngvakeppninnar.
Fleiri en 500 tónlistarmenn hér á landi hafa krafist þess að Ísland dragi sig út úr Eurovision, vegna þátttöku Ísraels í keppninni, og vilja þannig sýna afstöðu gegn árásum Ísraelshers á Gasasvæðið.
Ríkisútvarpið svaraði því í gær með þeim hætti að söngvakeppni sjónvarpsins er nú sögð aftengd sjálfri Eurovision-keppninni, með þeim hætti að sigurvegari keppninnar þurfi ekki endilega að taka þátt í Eurovision.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sagði í samtali við mbl.is að sú ákvörðun væri þó á endanum alltaf á herðum sjálfs útvarpsins.
Af Ísrael er það að segja að landið skipar 6. sæti á sama lista yfir veðmálastuðla.