Bandaríska leikaranum Danny Masterson var í gærdag neitað um lausn gegn tryggingu úr fangelsi í dómsal í Los Angeles. Lögmenn hans freistuðu þess að fá hann lausan úr haldi á meðan unnið er að endurupptöku málsins. Masterson var dæmdur í 30 ára fangelsi snemma í september á síðasta ári fyrir að nauðga tveimur konum snemma á þessari öld.
Í úrskurði kemur fram að helsta ástæða þess að beiðni Masterson hafi verið neitað sé sú að hann sé talinn líklegur til að flýja. „Í ljósi þess að sakborningur á ekki eiginkonu til að snúa aftur heim til, hefur hann nú alla hvata til að flýja,“ sagði Charlaine Olmedo, hæstaréttardómari í Los Angeles. Hún tók það einnig fram að leikarinn muni að öllum líkindum eyða áratugum ef ekki ævi sinni í fangelsi verði úrskurður staðfestur.
Masterson var dæmdur fyrir að nauðga tveimur konum á heimili sínu í Hollywood Hills árin 2001 og 2003. Hann var einnig kærður fyrir að nauðga einni annarri konu en kviðdómurinn taldi sönnunargögnin ekki sannfærandi. Saksóknari sagði Masterson hafa byrlað konunum og síðan beitt þær ofbeldi.
Eiginkona Masterson, leikkonan Bijou Philips, sótti um skilnað stuttu eftir að leikarinn var sakfelldur. Fyrrverandi hjónin eiga eina unga dóttur.