Gamanleikarinn Martin Short fullyrti að orðrómur um meint ástarsamband hans og stórleikkonunnar Meryl Streep væri ekkert annað en uppspuni. Short greindi frá þessu í viðtali sínu við Bill Maher í hlaðvarpsþætti hans Club Random with Bill Maher á sunnudag.
„Við erum ekki par, við erum bara góðir vinir,“ sagði Short við Maher þegar hann spurði leikarann um það hvort hann og Streep væru nýjasta ofurparið í Hollywood. „Já, því eins og þú veist þá er ekkert kröftugra í Hollywood en nýtt ofurpar,“ grínaðist Maher þá. „Eins og þú sérð, þá gekk þetta upp fyrir Tom Cruise og Nicole Kidman og einnig fyrir þau Brad Pitt og Angelinu Jolie,“ gantaðist Maher áfram.
Orðrómur um parið fór á kreik eftir Golden Globe-verðlaunahátíðina, en Short og Streep voru mikið saman það kvöldið og létu vel hvort að öðru. Bæði voru þau tilnefnd fyrir hlutverk sín í þáttaröðinni Only Murders in the Building, en þar leika Short og Streep elskendur.
Short var kvæntur leikkonunni Nancy Dolman frá árinu 1980 og þar til hún lést árið 2010 af völdum krabbameins í eggjastokkum. Streep var gift myndhöggvaranum Don Gummer í 45 ár en þau standa nú í skilnaði.