Bandaríski leikarinn Danny Masterson hefur verið fluttur í annað fangelsi með hámarks öryggisgæslu þar sem hann mun afplána 30 ára fangelsisdóm.
Masterson var fluttur í Corcoran-ríkisfangelsið í Kaliforníu og mun ekki eiga rétt á reynslulausn fyrr en í júlí 2042. Masterson situr nú í sama fangelsi og Manson-leiðtoginn, Charles Manson, sem nú er látinn, sat í til fjölda ára.
Masterson var dæmdur í 30 ára fangelsi snemma í september á síðasta ári. Leikarinn, sem margir þekkja úr gamanþættinum That 70s Show, var dæmdur fyrir að nauðga tveimur konum á heimili sínu í Hollywood Hills árin 2001 og 2003. Hann var einnig kærður fyrir að nauðga einni annarri konu en kviðdómurinn taldi sönnunargögnin ekki sannfærandi. Saksóknari sagði Masterson hafa byrlað konunum ólyfjan og síðan beitt þær ofbeldi.
Eiginkona Masterson, leikkonan Bijou Philips, sótti um skilnað stuttu eftir að leikarinn var sakfelldur. Fyrrverandi hjónin eiga eina unga dóttur.