Beiðni bandarísku söngkonunnar Lizzo um að mál þriggja fyrrverandi dansara sinna gegn sér yrði vísað frá dómi var hafnað af dómara í Los Angeles í gær. Bandaríski miðillinn People greinir frá.
Dansararnir þrír eru þær Arianna Davis, Crystal Williams og Noelle Rodriguez. Þær hafa meðal annars sakað Lizzo um kynferðislega áreitni, mismun á grundvelli fötlunar og kynþáttafordóma.
Ron Zambrano, lögmaður dansaranna, segir við People að niðurstaða dómara sé ánægjuleg. Hins vegar hafi dómari vísað nokkrum liðum kærunnar frá, meðal annars ásökunum um fitufordóma, nektarmyndatöku og að dansarar hafi verið skyldaðir á bakvakt þegar þeir voru ekki á tónleikaferðalagi.
Stefan Friedman, talsmaður Lizzo, segir söngkonuna vera ánægða með að nokkrum ásökunum hafi verið vísað frá dómi. Hins vegar verði málinu áfrýjað þar sem söngkonan vilji að kærunni í heild verði vísað frá. Hún hafnar öllum ásökunum.