Grammy-verðlaunin voru veitt í gærkvöldi við hátíðlega athöfn í Crypto-höllinni í Los Angeles. Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir varð sjöundi Íslendingurinn til að hreppa hin eftirsóttu tónlistarverðlaun, en rúmir tveir áratugir eru liðnir frá því að fyrstu Íslendingarnir hlautu Grammy-verðlaun.
Steinar Höskuldsson, eða S. Husky Hoskulds, var fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Grammy-verðlaun árið 2003. Hann hlaut tvenn verðlaun fyrir vinnu sína við plötu söngkonunnar Noruh Jones, Come Away With Me, bæði fyrir bestu hljóðupptöku og sem aðstandandi plötunnar í heild.
Óperusöngvarinn Gunnar Guðbjörnsson var ásamt Steinari fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Grammy-verðlaun, en hann frétti hins vegar ekki af því að hann hefði unnið verðlaunin fyrr en 20 árum síðar.
Árið 2023 komst Gunnar að því að hann hefði hlotið Grammy-verðlaun árið 2003, en upptaka á óperunni Tannhäuser eftir Wagner sem hann tók þátt í upp úr aldamótum hlaut verðlaunin sem besta óperupptakan.
„Ég hefði gjarnan viljað vita af þessu fyrir 20 árum síðan. Þá var maður á fullu í bransanum og að markaðssetja sig,“ sagði Gunnar í samtali við Morgunblaðið, en hann var að grúska á netinu þegar hann rakst á upplýsingarnar.
Árið 2009 hlutu fiðluleikarinn Sigurbjörn Bernharðsson, sellóleikarinn Brandon Vamos, fiðluleikarinn Simin Ganatra og víóluleikarinn Masumi Per Rostad, sem saman mynda Pacifica-kvartattinn, Grammy-verðlaun fyrir besta kammermúsíkleikinn. Verðlaunin fengu þau fyrir plötu með verkum eftir Elliott Carter.
Árið 2014 hlaut Tui Hirv Grammy-verðlaun þegar Adam's Lament hljómplata ECM New Series útgáfunnar vann verðlaun fyrir bestu frammistöðu kórs, en Tui söng einsöng í einu verkanna, L'Abbé Agathon.
Söngvarinn Kristinn Sigmundsson hlaut Grammy-verðlaun þegar ópera Corigliano Draugar Versala vann til tvennra verðlauna á hátíðinni árið 2017, en Kristinn söng hlutverk Loðvíks 16 í uppfærslunni. Óperan hlaut bæði verðlaun sem besta klassíska albúmið og besta óperuupptakan.
Hildur Guðnadóttir tónskáld hlaut sín fyrstu Grammy-verðlaun árið 2020 fyrir tónlist sína við sjónvarpsþáttaröðina Chernobyl. Þá hafði hún þegar hlotið Emmy-verðlaun og World Soundtrack-verðlaun fyrir hljóðverkið.
Árið 2021 hlaut hún önnur Grammy-verðlaun fyrir tónlist sína í stórmyndinni um Jókerinn. Hún hafði þá hlotið Óskarsverðlaun, Golden Globe-verðlaun og BAFTA-verðlaun fyrir tónlistina í myndinni.
Óperusöngkonan Dísella Lárusdóttir hlaut Grammy-verðlaun árið 2022 fyrir bestu óperuupptökuna. Dísella lék burðarmikið hlutverk í óperu Philips Glass: Akhnaten, undir hljómsveitarstjórn Karenar Kamensek.
Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir varð í gærkvöldi áttundi Íslendingurinn til að hljóta Grammy-verðlaun og jafnframt sá yngsti, en hún er 25 ára gömul. Laufey hlaut verðlaun fyrir plötu sína Bewitched í flokki hefðbundinna söng-poppplatna (e. traditional popo vocal album).
Áður en hún hlaut verðlaunin flutti hún lagið From the Start sem er á plötunni, en seinna sama kvöld steig hún á svið með tónlistarmanninum Billy Joel og spilaði á selló í sögufrægum flutningi.