Hinnar kynngimögnuðu Tinu Turner var minnst á Grammy-verðlaunahátíðinni á sunnudagskvöldið. Það var engin önnur en sjónvarpskonan og elskuleg vinkona Turner til margra ára, Oprah Winfrey, sem heiðraði minningu rokkgyðjunnar.
Winfrey kynnti á svið söng- og leikkonuna Fantasiu Barrino sem flutti eitt þekktasta lag Turner, Proud Mary, við mikinn fögnuð áhorfenda, enda fáir haft jafnmikil áhrif á tónlistar- og afþreyingarmenningu heimsins.
Sjónvarpskonan deildi skemmtilegu myndskeiði á Instagram frá æfingu Grammy-verðlaunanna, en þar sést Winfrey fylgjast með flutningi Barrino og tekur hún hvert danssporið, sem Turner gerði frægt, á fætur öðru. Winfrey brast í grát eftir flutninginn.
Turner lést í maí í fyrra. Hún var 83 ára gömul.