Vinsældir samfélagsmiðilsins TikTok hafa vaxið á ógnarhraða á undanförnum árum um allan heim, en í dag er miðillinn með yfir eina billjón virka notendur. Þó nokkrir Íslendingar hafa náð góðum árangri á miðlinum og tók blaðamaður mbl.is saman lista yfir fimm íslenskar TikTok-stjörnur sem eru með yfir milljón fylgjendur.
Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir hefur verið á sannkallaðri sigurför um heiminn. Hún hlaut á dögunum sín fyrstu Grammy-verðlaun og hefur notið mikilla vinsælda um allan heim. Hún er með stóran fylgjendahóp á TikTok, eða rúmlega 3,9 milljónir og hafa myndbönd hennar fengið yfir 154,9 milljónir „likes“.
Förðunarfræðingurinn Embla Wigum hefur notið mikilla vinsælda á TikTok þar sem hún birtir ótrúleg förðunarmyndbönd og gefur fylgjendum sínum innsýn í sitt daglega líf. Hún er búsett í Lundúnum þar sem hún starfar við efnissköpun á samfélagsmiðlum, en hún er með yfir 2,6 milljónir fylgjenda á TikTok og hafa myndbönd hennar fengið yfir 79,3 milljónir „likes“.
Brynhildur Gunnlaugsdóttir er með 1,6 milljón fylgjendur á TikTok þar sem hún deilir ýmsum myndböndum, allt frá æfingarmyndböndum yfir í dansmyndbönd sem hafa samtals fengið 30,4 milljónir „likes“. Hún byrjaði nýverið með hlaðvarpsþættina Gellukast ásamt vinkonu sinni Söru Jasmín Sigurðardóttur, en það vakti mikla athygli þegar Brynhildur greindi frá óvænt frá því að hún hefði eignast dóttur í hlaðvarpsþættinum.
Kraftlyftingamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson er með 1,4 milljón fylgjendur á miðlinum og hafa myndbönd hans fengið yfir 37 milljónir „likes“. Á miðlinum deilir hann mikið æfinga- og lyftingamyndböndum, en myndbönd sem sýna stærðarmuninn á Hafþóri og eiginkonu hans Kelsey Henson hafa einnig vakið mikla athygli.
Arnar Gauti Arnarsson, betur þekktur sem Lil Curly, hefur notið mikilla vinsælda á TikTok en hann er með 1,2 milljón fylgjendur á miðlinum. Þar deilir hann hinum ýmsu myndböndum, bæði áskorunum og sketsum, en myndbönd hans hafa fengið yfir 44,3 milljónir „likes“.