Eric Idle segist enn vera að störfum sem leikari áttræður að aldri vegna fjárhagsástæðna.
Grínistinn, sem sló í gegn í hópnum Monty Python, seldi heimilið sitt á síðasta ári.
„Ég veit ekki hvers vegna fólk heldur alltaf að við eigum nóg af peningum. Python er stórslys,” sagði hann á samfélagsmiðlinum X.
„Mig óraði aldrei fyrir því að á þessum tímum myndi innkomustreymið fara svona illa út af sporinu.”
Gaf hann jafnframt í skyn að ekki hefði verið haldið nógu vel utan um fjármál Monty Python í gegnum tíðina, að því er BBC greindi frá.
Hann sagði að heimildarmynd á Netflix gæti rétt fjárhaginn af en bætti við: „Það er allt í lagi þótt ég sé ekki ríkur. Ég vil miklu frekar vera fyndinn.”