Kvikmyndin Oppenheimer, í leikstjórn Christopher Nolan, stóð uppi sem sigurvegari á BAFTA verðlaunahátíðinni sem fram fór í kvöld.
Fékk hún sjö verðlaun samtals og var valin besta kvikmyndin, Christopher Nolan var valinn besti leikstjórinn, írski leikarinn Cillian Murphy valinn besti leikarinn og Robert Downey Jr. hlaut verðlaun í flokki aukaleikara. Þykir þetta benda til góðs gengis myndarinnar á Óskarsverðlaunahátíðinni sem fer fram í mars.
Nolan þakkaði kvikmyndaframleiðandanum Universal í þakkarræðu sinni fyrir að hafa leyft sér og teymi sínu að gera „eitthvað þungt og trúa á það“.
Kvikmyndin Poor Things stóð einnig uppi sem sigurvegari með fimm verðlaun, þar af til Emmu Stone sem valin var besta leikkonan.
Þá fékk leikkonan Da'Vine Joy Randolph verðlaun í flokki aukaleikara og þakkaði í ræðu sinni samleikara sínum Paul Giamatti: „Guð, ég græt alltaf þegar ég sé nafnð þitt. Þú stendur fyrir allt sem er gott og frábært í okkar listsköpun.“
Dramatíska kvikmyndin The Zone of Interest, í leikstjórn Jonathan Glazer, fékk verðlaun fyrir að vera mest framúrskarandi breska myndin auk þess sem hún var valin besta myndin í flokki mynda á öðru tungumáli en ensku. Barbie, Saltburn, Maestro og Killers of the Flower Moon, fóru tómhentar af hátíðinni.