Leikarinn Andrew Scott, best þekktur fyrir hlutverk sitt sem The Priest í þáttaröðinni Fleabag, var ekki sáttur við spurningu fréttamanns BBC á rauða dregli Bafta-verðlaunahátíðarinnar á sunnudag. Scott fékk heldur óviðeigandi spurningu og gekk í burtu og áfram niður rauða dregilinn áður en Colin Paterson, gamalreyndur fréttamaður BBC, hafði lokið máli sínu.
Scott var mættur til að fagna kvikmyndinni All of Us Strangers og aðstandendum hennar, en hann gekk rauða dregilinn ásamt mótleikara sínum, Paul Mescal. Kvikmyndin var tilnefnd í sex flokkum á verðlaunahátíð bresku kvikmynda- og sjónvarpakademíunnar og þar á meðal sem besta breska kvikmyndin.
Þegar Paterson byrjaði að ræða við Scott þá sýndi hann leikaranum og hinni margrómuðu kvikmynd hans og Mescal lítinn sem engann áhuga. Paterson einbeitti sér heldur að því að spyrja Scott, sem er samkynhneigður, út í lokaatriði kvikmyndarinnar Saltburn, en þar sést í getnaðarlim leikarans Barry Keoghan.
Fréttamaðurinn vildi meðal annars vita hvernig Scott leið þegar hann horfði á atriðið og hvort hann teldi Keoghan hafa sýnt sitt allra heilagasta í réttu ljósi. Scott fer ekki með hlutverk í kvikmyndinni Saltburn.
This is frankly disgusting. Andrew Scott is there to support his multiple nominated film and THIS is what you ask? Then when he looks visibly uncomfortable the guy carried on. Truly horrid. #BAFTAs pic.twitter.com/42VEoBXRQi
— Alex Gilston 🔜 GFF 2024 (@PresenterAlex) February 18, 2024