Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt í Gunnarshúsi núna klukkan ellefu. Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 13 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Reykjavík í haust í tengslum við 76. þing Norðurlandaráðs.
Íslensku dómnefndina skipa Kristján Jóhann Jónsson, Silja Björk Huldudóttir og Soffía Auður Birgisdóttir, sem er varamaður.
Í umsögn dómnefndar um Jarðsetningu sem Angústúra gefur út segir:
„Hvernig mótar umhverfið okkur sem manneskjur? Hvernig er best að vinda ofan af þeirri hugmynd að uppsprettur jarðar séu ótæmandi? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem Anna María Bogadóttir arkitekt spyr í bókverkinu Jarðsetningu. Bókin kallast sterklega á við annars vegar gjörning sem Anna María stóð fyrir í stórhýsi Iðnaðarbankans í miðborg Reykjavíkur í aðdraganda þess að húsið var rifið til að rýma til fyrir nýrri og arðvænni starfsemi og hins vegar samnefnda kvikmynd hennar um niðurrif byggingarinnar sem var frumsýnd 2021.
Í 40 myndaopnum bókarinnar, sem eru vel staðsettar í textaflæðinu, má sjá ljósmyndir Önnu Maríu frá niðurrifinu og stillur úr kvikmyndinni ásamt eldri svarthvítum ljósmyndum sem fanga notkun byggingarinnar með tilheyrandi mannlífi.
Bankabyggingin myndar ytri ramma frásagnarinnar þar sem fjallað er um tilurð eða fæðingu hennar, þróun, andlát og loks útför. Jafnvel þó stórhýsinu hafi við byggingu verið ætlað hlutverk til langrar framtíðar fékk það aðeins að þjóna tilgangi í rúma hálfa öld áður en það var dæmt úr leik og afskrifað sem einnota. Þrátt fyrir að byggingin leiki stórt hlutverk í Jarðsetningu er bókin miklu meira en fræðirit um arkitektúr.
Með frumlegum texta og heillandi myndefni tekst höfundi að brúa bilið milli arkitektúrs og bókmennta. Jarðsetning er áhrifamikið verk og persónulegt þar sem höfundur speglar sig sem manneskju og eigið æviskeið í sögu umræddrar byggingar. Því eins og Anna María orðar það þá geymir hús, líkt og líkaminn, minningar og kannski erum við öll byggingar – ýmist á leið í urðun eða uppfyllingu.
Jarðsetning er ekki aðeins saga af húsi heldur geymir hún þroskasögu höfundar sjálfs og er í þeim skilningi margslungin skáldævisaga. Anna María deilir minningum af uppvaxtarárum sínum í fámennu sjávarþorpi á Austfjörðum, unglingsárum í Reykjavík og leit að réttri menntun sem leiðir hana til Frakklands að lesa frönsku, heim til Íslands aftur að nema bókmenntir, til Danmerkur í táknfræði og menningarfræði og loks Bandaríkjanna í arkitektúr.
Samhliða eigin þroskasögu stiklar höfundur, í fyrstu persónu frásögn, á stóru í því samfélagsumróti sem orðið hefur vegna tæknibreytinga, aukinnar alþjóðavæðingar og sífellt umfangsmeiri áhrifa kapítalismans. Eftir því sem sjóndeildarhringurinn stækkar fara efasemdir hennar um ágæti ýmissa kerfa að hreiðra um sig og Anna María gerir sér sífellt betur grein fyrir því að yfirborð og innihald fara ekki endilega saman. Í stað þess að lesa aðeins bækur og ljóð fer höfundur markvisst að lesa hús til að fá innsýn í tungumál þeirra og táknkerfi.
Jarðsetning er margþætt verk sem á brýnt erindi við samtímann. Höfundur gengur á hólm við hugmyndafræði og gildismat samfélags sem stýrt er af markaðs- og fjármálaöflum þar sem bruðl og sóun á kostnað jarðarinnar hafa fengið að viðgangast alltof lengi. En eins og höfundur bendir á getur það að varðveita í raun verið framsæknasta lausnin meðan niðurrif og nýbyggingar geta verið dæmi um afturhald.
Þó kveikjan að bókverkinu sé niðurrif eins húss á Íslandi er Anna María á skapandi og skáldlegan hátt að skoða og greina valdakerfi, orðræðu og strúktúr í menningarsögulegu og alþjóðlegu samhengi. Jarðsetning er mikilvægt innlegg í umræðuna um hlutskipti kvenna, sem lengi vel voru ekki teiknaðar inn í almenningsrýmið og þóttu fram af tuttugustu öld ekki eiga neitt erindi í karllægan heim byggingalistarinnar.
Sú snjalla leið höfundar að spegla ævi sína í Iðnaðarbankahúsinu skapar sterka hluttekningu með byggingunni sem sárt er að kveðja undir lok bókar þegar niðurrifið hefst. Á sama tíma markar endirinn óumflýjanlega nýtt upphaf. Hér er á ferðinni óvenjuleg og mögnuð bók.“
Í umsögn dómnefndar um Tól sem JPV útgáfa gefur út segir:
„Í þessari skáldsögunni eru fjórar aðalpersónur, en vægi þeirra er mismunandi. Sögumaður í fyrstu sögunni er kvikmyndagerðarkonan Villa sem talar í fyrstu persónu og tekur þannig stöðu höfundar í
upphafi þó hún eigi ekkert skylt við eiginlegan höfund verksins. Villa segir sögu Dimitri eða Dimma að mestu leyti um leið og sína. Aðrar sögur eru skrifaðar af þriðju persónu sem þekkir persónur verksins, víkur oft að sögu Dimitri/Dimma og segir sögu Ninju, vinkonu Villu, auk Jóns Loga, barnsföður hennar.
Þessar fjórar grunnsögur í bókinni tengjast allar gegnum Dimitri/Dimma. Frásögninni er beitt eins og verkfæri eða tóli til þess að búa sannleikann til og afbyggja hann á víxl. Lífið hefur leikið Dimitri/Dimma hart og lesandinn fær smám saman að vita að sakaskrá hans er ekki fögur. Jón Logi og Ninja vita það bæði en Villa, sem er að búa til kvikmynd um Dimitri/Dimma, reynir að eyða þeirra sögu og skapa aðra fegurri og betri, sögu sem hún þekkir og finnst sönn en öðrum þykir ótrúverðug.
Ninja er að vinna með henni og þær takast á um þetta. Villa vill að skáldskapur hennar sé sannleikur. Þannig skilur hún viðfangsefni sitt vegna þess að hún hefur annað sjónarhorn en hinir.
Villa og Dimitri/Dimmi tengjast á unglingsárum og þá voru þau að sjálfsögðu önnur en þau eru orðin á frásagnartímanum. Villa á dreng sem hún vill ekki bregðast, en gerir það samt að miklu leyti. Að einhverju leyti virðist hún ætla kvikmyndinni að verja bernsku þeirra Dimitri/Dimma, og jafnframt sakleysið sem bernskan geymir. Dimitri/Dimmi er á sögutímanum orðinn hvalveiðimaður og hórmangari og bæði glíma þau við fíknivanda sem hefur breytt þeim og rænt þeim persónuleika sem Villu finnst að eitt sinn hafi verið þeirra og „sannur“ á sinn hátt.
Í upphafi sögunnar er Villa stödd á kvikmyndaráðstefnu í Svíþjóð til þess að tala um kvikmynd sína, þar verður árekstur milli skáldskapar og upplýsinga og í þeim árekstri hefst skáldsagan Tól. Smám saman verður ljóst að saga allra aðalpersónanna snýst um baráttu við að halda ævi sinni í línulegri frásögn sem samfélaginu geðjast að.
Sú línulaga frásögn er alls ekki „sannari“ en hinn tilfinningatengdi skáldskapur Villu, sem Kristín Eiríksdóttir hefur sett saman og tengt við söguna af Jóni Loga og Ninju. Hvaðan kom eiginlega sú hugmynd að mannlífið ætti að vera rökrétt og línulaga?
Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur er glæsilega fléttuð frásögn sem ristir djúpt í greiningum sínum á mannlífinu. Jafnframt ögrar verkið vinsælum hugmyndum um rétthugsun, skáldskap og málfrelsi.“
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1962 fyrir fagurbókmenntaverk sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Það getur verið skáldsaga, leikverk, ljóðabók, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á menningarsamkennd Norðurlanda og að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði lista.
Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins verða aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins þegar það opnar aftur í júní eftir viðhald á húsnæðinu. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi. Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefnum: norden.org/is/bokmenntaverdlaunin.