Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens biðlar til fólks um að hætta að koma með athugasemdir um söngkonuna Heru Björk, sem á dögunum sigraði Söngvakeppni sjónvarpsins með laginu Scared of Heights.
Bubbi, sem er einn af ástsælustu tónlistarmönnum landsins, birti færslu á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem hann bað fólk um að hætta að sýna söngkonunni dónaskap og leiðindi á samfélagsmiðlum.
„Hera Björk vann þessa blessuðu keppni. Hún ákvað að fara til Svíþjóðar og syngja, það er hennar val. Það er óþarfi að pönkast í henni þó einhverjir séu ósammála. Mér líkar ekki hvernig fólk kemur fram við hana á samfélagsmiðlum. Hún tók þátt af heilindum og góðri trú. Látið hana í friði,” skrifaði Bubbi.
Það skýrist í dag hvort Hera Björk haldi út til Svíþjóðar fyrir hönd Íslands.
Ríkisútvarpið og framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar hafa haldið spilunum þétt að sér síðan Hera Björk bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni og ekki gefið upp hvort ákvörðun hafi verið tekin um hvort Ísland taki þátt í keppninni eða ekki.