Óhætt er að segja að flutningur kanadíska leikarans Ryan Gosling á laginu I'm Just Ken hafi slegið í gegn á Óskarsverðlaunahátíðinni í nótt. Lagið, sem er samið af Mark Ronson, var meðal tilnefndra.
Gosling, 43 ára, klæddist bleikum demantsskreyttum jakkafötum og söng lagið af mikilli innlifun. Leikarinn, sem var sjálfur tilnefndur fyrir hlutverk sitt í Barbie, fékk áhorfendur til að rísa úr sætum og syngja með. Margot Robbie, Greta Gerwig og Emma Stone voru meðal þeirra sem tóku undir með Gosling.
Á sviðinu var leikarinn umkringdur hæfileikaríkum listamönnum. Höfundur lagsins, Mark Ronson, spilaði á gítar ásamt hljómsveit sinni og leikararnir Simu Liu og Kingsley Ben-Adir, sem fóru einnig með hlutverk Ken í Barbie, dönsuðu og sungu við hlið Gosling ásamt tugum dansara.
Óvæntur leynigestur birtist síðan á sviðinu, en einn frægasti gítarleikari í heimi, Slash, mætti á svið og plokkaði strengina við mikinn fögnuð áhorfenda.