Hera Björk Þórhallsdóttir mun fara út til Svíþjóðar og flytja lagið Scared of Heights í Eurovision í ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rúv.
Hera Björk vann einvígi Söngvakeppninnar í ár, en ekki var endanlega víst með þátttöku hennar fyrr en í dag, þegar skilafrestur var til að skila inn gögnum um þátttöku ríkja til Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva.
Hera Björk segist hafa verið hugsi eftir umrræðu um þátttöku Íslands og segir umræðuna hafa hryggt sig. „Ég viðurkenni að í allri umræðunni eftir Söngvakeppnina varð ég hugsi. Umræðan hryggir mig. Bæði hvernig talað var um mig og mér gerðar upp alls kyns annarlegar skoðanir og meiningar og ekki síður hvernig talað var um Bashar. Þessi umræða var okkur ekki til sóma og eftir því sem ég hugsaði þetta meira hertist ég í því að standa við orð mín og halda utan eins og þjóðin kaus mig til að gera. Ég og minn góði hópur munum taka þátt og gera allt sem við getum til að breiða út boðskap friðar og kærleika á sviðinu og sameinast í gegnum tónlistina.“
Nokkur ágreiningur hefur verið um þátttöku Íslands í keppninni, en það helgast bæði af galla í kosningu í Söngvakeppninni og óánægju með þátttöku Íslands þar sem Ísrael tekur þátt.
Þannig ákvað Rúv að slíta tengsl Söngvakeppninnar við Eurovision og að ákveðið yrði með þátttöku Íslands eftir að ljóst yrði hver myndi sigra Söngvakeppnina.
Í tilkynningu Rúv í dag er haft eftir Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra Rúv, að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld. „Við höfum auðvitað orðið vör við ólguna í samfélaginu vegna keppninnar hér heima og mögulegrar þátttöku úti. Hera Björk vann einvígið með yfirburðakosningu almennings og við lítum á það sem eindreginn stuðning við að hún fari í Eurovision fyrir okkar hönd. Við hvetjum öll til að fylkja sér á bak við Heru og hennar samstarfsfólk, hún verður glæsilegur fulltrúi okkar.“
Þá er einnig haft eftir honum að aldrei hafi komið til greina að senda út langið sem varð í öðru sæti ef Hera hefði afþakkað boðið.
Ágallar urðu í kosningu í Söngvakeppninni þegar kom að kosningaappinu Rúv Stjörnur, en það var notað ásamt hefðbundinni símakosningnu. „Fyrir mistök virkaði tiltekinn möguleiki í appinu ekki sem skyldi og kom það niður á báðum lögunum í einvíginu. Samkvæmt gögnum frá framleiðendum appsins voru aðeins greidd 748 atkvæði með þessum hætti, bæði í fyrri kosningunni sem gekk snurðulaust, og í þeirri seinni þegar mistökin urðu,“ segir í tilkynningu Rúv. Tekið er fram að atkvæðin sem mögulega hafi misfarist séu enn færri en talið var í fyrstu og ljóst að þau höfðu ekki áhrif á lokaniðurstöður.
Ásdís María Viðarsdóttir, höfundur Scared of Heights, sagði í viðtali við Ríkisútvarpið á föstudag að hún hefði sjálf tekið ákvörðun um að fylgja laginu ekki alla leið út til Malmö, þó að Ríkisútvarpið tæki ákvörðun um að Ísland tæki þátt. Þá hefur fjöldi íslenskra tónlistarmanna þrýst á Ríkisútvarpið að taka ekki þátt í keppninni í ár. Rúmlega 500 tónlistarmenn skrifuðu undir áskorun þess efnis í janúar.
Vilja tónlistarmennirnir að Ríkisútvarpið sniðgangi keppnina vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs, en Ísrael er á meðal þátttökuríkja í Eurovision.
„Auðvitað er leiðinlegt að einn höfunda lagsins, Ásdís María Viðarsdóttir, hafi ákveðið að fara ekki út en við skiljum afstöðu hennar. Hún tjáði okkur þó að hún myndi ekki standa í vegi fyrir að Hera héldi sínu striki og flytti sigurlagið í Malmö, sem er göfugt og fallegt af henni,“ er haft eftir Skarphéðni í tilkynningu Rúv í dag.
Hera Björk hlaut samtals um 3.300 fleiri atkvæði en Bashar Murad í einvíginu, en Bashar hafði þó fengið flest atkvæði í fyrri umferð. Vann Murad fyrri umferðina með rúmlega 47 þúsund atkvæðum, en Hera var með rúmlega 32 þúsund atkvæði, en þar fær dómnefndin helmingsvægi á móti almenningi.
Almenningur snerist hins vegar á sveif með Heru Björk í einvíginu og hlaut hún þar 68.768 atkvæði á sama tíma og Bashar Murad hlaut 49.832 atkvæði.
Lagið Scared of Heights vann því einvígið með 18.936 atkvæðum þegar aðeins almenningur kaus á milli laganna tveggja.
Samanlögð atkvæði beggja umferða og með atkvæðum dómara skiptust þannig að Hera var með 100.835 atkvæði og Bashar Murad 97.495 atkvæði.
Fréttin hefur verið uppfærð.