Stafræn fingraför á fjölskyldumynd prinsessunnar af Wales gefa til kynna að nokkrar myndir hafi verið sameinaðar með hjálp myndvinnsluforritsins Photoshop.
Greining á gögnum sem myndin hefur að geyma, og breska dagblaðið Telegraph greinir frá, sýnir að límt hefur verið og afritað á myndina, allra líklegast við andlit prinsessunnar.
Lárétt lína fyrir neðan andlit Katrínar prinsessu þykir staðfesta þetta.
Áður hefur verið bent á líkindi með mynd af Katrínu sem birtist á forsíðu tískuritsins Vogue árið 2016.
Gögn sem fylgja myndinni benda til að myndin hafi verið tekin á föstudagskvöld í Adelaide-koti, þar sem fjölskyldan býr í Windsor.
Fyrst var átt við myndina klukkan 21.54 það kvöld og svo aftur kl. 9.39 að morgni laugardags.
Myndin var að auki tekin á Canon-myndavél. Konungsfjölskyldan hefur fullyrt að Vilhjálmur prins hafi tekið myndina. Hún hefur einnig hafnað að birta upprunalegu myndina.
Reuters, AP, Getty og AFP afturkölluðu myndina úr kerfum sínum í fyrrakvöld og vöruðu fjölmiðla við notkun myndarinnar. AP sagði ástæðuna vera að í ljós hefði komið að átt hefði verið við myndina.
Telegraph hafði svo eftir talsmanni AP að sérstaklega væri horft til vinstri handleggs Karlottu prinsessu.
Katrín, prinsessa af Wales, gaf út afsökunarbeiðni í kjölfar þess að nokkrar stærstu fréttaveitur heims drógu til baka mynd af henni og börnum hennar sem Kensingtonhöll gaf út um helgina. Í tilkynningunni kvaðst prinsessan stundum prófa breytingar á myndum, eins og margir áhugaljósmyndarar.