Ljósmyndin af Katrínu, prinsessu af Wales, ásamt börnum sínum hefur fengið mikla athygli síðustu daga eftir að upp komst um myndbreytingar.
Nú er því haldið fram að nokkrar ljósmyndir úr safni konungsfjölskyldunnar hafi verið notaðar til að skapa hina brosandi fjölskyldumynd sem fór líkt og eldur í sinu um heiminn.
Athyglinni hefur sérstaklega verið beint að andliti Katrínar, prinsessu af Wales, en margir eru á því að andlitið sem við sjáum á myndinni sé tekið af forsíðumynd sem birtist í Vogue árið 2016.
— Ruby Naldrett (@rubynaldrett) March 11, 2024
Reuters, AP, Getty og AFP afturkölluðu myndina úr kerfum sínum í fyrrakvöld og vöruðu fjölmiðla við notkun myndarinnar. AP sagði ástæðuna vera að í ljós hefði komið að átt hefði verið við myndina.
Breska dagblaðið Telegraph hafði svo eftir talsmanni AP að sérstaklega væri horft til vinstri handleggs Karlottu prinsessu.
Katrín, prinsessa af Wales, gaf út afsökunarbeiðni í kjölfar þess að nokkrar stærstu fréttaveitur heims drógu til baka mynd af henni og börnum hennar sem Kensingtonhöll gaf út um helgina. Í tilkynningunni kvaðst prinsessan stundum prófa breytingar á myndum, eins og margir áhugaljósmyndarar.