Leikkonan Olivia Munn greindi frá því fyrr í dag að hún hefði greinst með brjóstakrabbamein á síðasta ári. Munn birti langa færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hún sagði meðal annars frá því að hafa gengist undir tvöfalt brjóstnám aðeins 30 dögum eftir greiningu.
Munn, 43 ára, fékk þær upplýsingar að hún væri ekki með BRCA-genið, genið sem eykur verulega líkur á krabbameini, eftir að hafa farið í heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn.
Kvensjúkdómalæknir Munn, Dr. Aliabadi, var ekki sannfærður um niðurstöður rannsóknarinnar og ákvað að senda leikkonuna í frekari rannsóknir. Þá kom í ljós að Munn var með Luminal B-krabbamein í báðum brjóstum.
Munn hélt veikindum sínum leyndum en ákvað að deila sögu sinni með fylgjendum sínum í von um að hún verði öðrum til hjálpar.
Leikkonan er á góðum batavegi, en hún sótti Óskarspartí Vanity Fair á sunnudag ásamt sambýlismanni sínum, John Mulaney.