„Eitruð lítil pilla er hrá og kröftug sýning sem talar sterkt til samfélagsins. Af þeim sökum ætti enginn að láta þessa úrvalssýningu framhjá sér fara,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir, leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins, í leikdómi sínum um söngleikinn sem Borgarleikhúsið frumsýndi seint í síðasta mánuði og gefur uppfærslunni fullt hús eða fimm stjörnur.
Söngleikurinn er byggður á tónlist af samnefndri plötu Alanis Morissette, Jagged Little Pill (1995), en handrit verksins samdi Diablo Cody.
„Eitruð lítil pilla er samkvæmt skilgreiningu glymskrattasöngleikur (e. jukebox musical) í þeim skilningi að söguþráðurinn er saminn í kringum og út frá fyrirfram tilbúinni tónlist – í þessu tilfelli metsöluplötu Morissette, en fyrir söngleikinn samdi hún sérstaklega lögin „Brosi“ og „Gerandi“. Stundum er talað um glymskrattasöngleiki með neikvæðum formerkjum líkt og þeir séu ómerkilegri eða minni listasmíð en söngleikir þar sem sagan og tónlistin eru samin samhliða. En þar veldur hver á heldur. Í höndum framúrskarandi listafólks höfum við notið þeirrar gæfu hérlendis á síðustu árum að fá á svið frábæra nýja söngleiki á borð við Níu líf (2020), Elly (2017) og Mamma mia! (frumsýndur hérlendis 2016), sem allir teljast til þessarar tegundar. Nú bætist Eitruð lítil pilla í þennan góða hóp,“ segir í rýni.
Þar kemur fram að í verkinu fái áhorfendur að fylgjast með einu örlagaríku ári í lífi Healy-millistéttarfjölskyldunnar sem rammað sé inn af árlegri jólakveðju hennar. „Á yfirborðinu lítur allt vel út. Mary Jane (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) er fyrirmyndarofurmamma í alla staði. Eiginmaðurinn Steve (Valur Freyr Einarsson) er í góðri stöðu í vinnunni. Sonurinn Nick (Sigurður Ingvarsson) var að komast inn í hinn eftirsótta Harvard-háskóla og dóttirin Frankie (Aldís Amah Hamilton) er skapandi og líflegur menntaskólanemi.
Ekki þarf hins vegar að krafsa lengi í glansandi yfirborðið til að þar birtist önnur og mun dekkri mynd. Steve er að drukkna í vinnu. Nick er að bugast undan þeim væntingum og kröfum sem til hans eru gerðar um framúrskarandi frammistöðu. Frankie er að bögglast með sjálfsmyndina sem ættleidd, hörundsdökk og tvíkynhneigð. Hún hrífst af Phoenix (Haraldur Ari Stefánsson) á meðan hún er í sambandi með Jo (Íris Tanja Flygenring) með tilheyrandi flækjum. Sjálf er Mary Jane í afneitun gagnvart því að hún er orðin háð ópíóðatöflunum sem hún hefur tekið síðustu marga mánuði til að slá á líkamlega sársaukann sem hrjáð hefur hana eftir bílslys nokkru áður en verkið hefst.
Inn í allan þennan sársauka og ringulreið bætist síðan Bella (Rán Ragnarsdóttir), skólasystir Nicks og Frankie, sem verður fyrir fólskulegri árás sem hefur hrikalegar afleiðingar fyrir hana og ýfir upp gömul sár sem Mary Jane hefur reynt að bæla árum og áratugum saman. Af framangreindu má sjá að verkið talar beint og ótrúlega sterkt inn í samtímann þar sem ópíóðamisnotkun fer vaxandi og samfélagið er að opna augu sín fyrir þeim fórnarkostnaði sem felst í óuppgerðum áföllum, sem alltof oft tengjast kynferðisobeldi. Á sama tíma er þetta verk sem fagnar fjölbreytileikanum, beinir sjónum að vanda unglingsáranna og mikilvægi þess að finna sína eigin rödd og þora að láta hana hljóma hátt og snjallt. Í ákveðnum skilningi má því segja að Eitruð lítil pilla birti okkur ekki aðeins persónulegt ferðalag einstakra persóna eða djúpstæða fjölskyldusögu heldur fangar verkið breiða samfélagssögu sem á brýnt erindi.
En þó umfjöllunarefnið sé þungt – og gæti fyrir vikið mögulega latt einhverja til að leggja leið sína í leikhúsið – þá er stórt hjarta í þessari sýningu, mikill húmor og sprúðlandi leikgleði. Yfir og allt um kring er síðan kröftug, einlæg, hljómræn og hrá tónlist Morissette sem lætur engan tónlistarunnanda ósnortinn – ekki síst í þeirri flottu útsetningu sem gerð hefur verið fyrir leiksviðið.“
Rýnir hrósar leikhópnum fyrir glæsilega frammistöðu. „Sérdeilis ánægjulegt er að sjá þá miklu breidd sem í hópnum birtist allt frá reynsluboltanum Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur til ungstirnisins Ránar Ragnarsdóttur, sem hefur nám í leiklistardeild Listaháskóla Íslands í haust. Jóhanna Vigdís, sem tekið hefur sér nokkurra ára hlé frá leikhúsinu, sýnir að hún hefur engu gleymt og brillerar í krefjandi hlutverkinu sem Mary Jane,“ segir rýnir og bætir við:
„Þó að tónlist Morissette sé einstaklega áheyrileg dylst engum kunnáttumanni hversu krefjandi og flókin hún er í flutningi. Hún útheimtir það að flytjendur búi yfir kröftugum röddum og hafi fullkomið vald á snurðulausum skiptum milli brjóst- og höfuðtóna. Á sama tíma má ekki falla í þá gryfju að reyna að flytja tónlistina of fágaða enda væri slíkt ekki í anda persóna verksins, nema ef vera skyldi Mary Jane. Leikhópurinn er skipaður þrususöngvurum sem ná að skila tónlistinni með áhrifaríkum og safaríkum hætti svo eftir er tekið. Á sama tíma þjóna lögin afar vel sem farvegur til að miðla tilfinningum persóna verksins.“
Leikdómurinn birtist fyrst á menningarsíðum Morgunblaðsins fimmtudaginn 14. mars.