Margir muna eftir þáttaröðinni Húsið á sléttunni (e. Little House on the Prairie), en hún var sýnd við miklar vinsældir á árunum 1974 til 1983. Þættirnir voru byggðir á samnefndri röð barnabóka eftir Lauru Ingalls Wilder og fjalla um Ingalls-fjölskylduna sem bjó á bóndabæ í Walnut Grove í Minnesota á árunum 1870 til 1880.
Í ár verða 50 ár frá því að fyrsti þátturinn fór loftið og því um að gera að rifja upp meðlimi Ingalls-fjölskyldunnar.
Michael Landon fór með hlutverk Charles Ingalls. Landon var vel þekktur sjónvarpsleikari og fór með hlutverk í þáttaröðum á borð við Bonanza og Highway to Heaven. Þekktasta hlutverk hans var sem fjölskyldufaðirinn í Húsinu á sléttunni.
Landon lést árið 1991 aðeins 54 ára að aldri. Banamein hans var briskrabbamein.
Karen Grassle hreppti hlutverk eiginkonunnar, Caroline Ingalls. Hlutverkið var eitt af hennar fyrstu á sjónvarpsskjánum en Grassle lék mest á sviði.
Árið 2021 gaf hún út endurminningar sínar, Grassle, Bright Lights, Prarie Dust: Reflections on Life, Loss and Love. Í bókinni fjallaði hún ítarlega um baráttu sína við alkóhólisma og greindi einnig frá erfiðleikum á tökusetti þáttanna.
Grassle, sem er orðin 82 ára gömul, hefur sagt skilið við leiklistina en hún lék sitt síðasta hlutverk árið 2021 í kvikmyndinni Not Forget.
Bandaríska leikkonan Melissa Gilbert fór með hlutverk Lauru Ingalls Wilder, sem var önnur elsta dóttir Ingalls-hjónanna. Gilbert var aðeins tíu ára gömul þegar hún hreppti hlutverkið.
Leikkonan hefur lítið sést á skjánum síðustu ár, en hún tók þátt í raunveruleikaþáttaröðinni Dancing with the Stars árið 2012 og endaði í fimmta sæti. Gilbert fagnar sextugsafmæli sínu í byrjun maí.
Það hefur lítið frést af leikkonunni Melissu Sue Anderson, en hún átti hug og hjörtu aðdáenda í hlutverki sínu sem elsta dóttir Ingalls-hjónanna, Mary Ingalls. Leikkonan verður 62 ára í september.
Tvíburasysturnar gerðu garðinn frægan í hlutverki Carrie Ingalls, en systurnar skiptust á að leika yngstu dóttur Ingalls-hjónanna. Systurnar hættu báðar í leiklistinni stuttu eftir að Húsið á sléttunni kvaddi skjáinn.