Á undanförnum árum hefur íslenska hljómsveitin Kaleo slegið rækilega í gegn um allan heim. Nú hefur eitt af lögum þeirra, Way Down We Go af plötunni A/B, fengið yfir milljarð spilana á streymisveitunni Spotify.
Hljómsveitina skipa þeir Jökull Júlíusson, aðalsöngvari og gítarleikari, Daníel Kristjánsson bassaleikari, Rubin Pollock aðalgítarleikari, Davíð Antonsson trommuleikari og Þorleifur Gaukur Davíðsson munnhörpuleikari.
Kaleo er með yfir 14 milljónir mánaðarlegra hlustenda á Spotify og hafa lög þeirra fengið yfir fimm billjónir spilana samtals á streymisveitunni. Þá hefur lagið Way Down We Go fengið flestar spilanir á Spotify, eða yfir milljarð, og hefur tónlistarmyndband lagsins fengið yfir 646 milljónir áhorfa á YouTube.
Hljómsveitin kemur frá Mosfellsbæ og var stofnuð árið 2012. Kaleo kom fram í fyrsta sinn á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni árið 2012, en sama ár unnu þeir hug og hjörtu landsmanna þegar þeir gáfu út ábreiðu á laginu Vor í Vaglaskógi.
Síðan þá hefur hljómsveitin gefið út þrjár plötur, Kaleo árið 2013, A/B árið 2016 og Surface Sounds árið 2021, ferðast um allan heim og haldið eftirsótta tónleika og verið tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir besta rokkflutning ársins á laginu No Good svo eitthvað sé nefnt.
Þá hefur tónlist þeirra verið spiluð í heimsfrægum þáttum á borð við Suits, Orange is the New Black, Grey's Anatomy og The Vampire Diaries, en þeir hafa einnig komið fram á stórum tónlistarhátíðum á borð við Coachella, Lollapalooza og Bonnaroo, og hitað upp fyrir goðsagnirnar í Rolling Stones þrisvar sinnum.