Vopnaðir sérsveitarmenn í Bandaríkjunum gerðu allsherjar húsleit á nokkrum heimilum í eigu tónlistarmannsins Sean Diddy Combs í tengslum við rannsókn lögreglu á mansals- og kynferðisbrotamáli.
Sérsveitarmennirnir á vegum heimvarnarráðuneytis Bandaríkjanna (HSI) brutu sér leið inn í stórhýsi hip-hop mógúlsins í New York, Los Angeles og Miami á meðan þyrlur sveimuðu yfir þökum þeirra.
Heimavarnarráðuneytið hefur ekki gefið upp hverjum aðgerðirnar beindust að en fjölmiðlar í Los Angeles hafa staðfest að húsleit hafi staðið yfir á heimili Diddy í borginni.
Slúðurmiðillinn TMZ hefur einnig undir höndum myndskeið sem sýnir húsleit við eign Diddy í Miami og sérsveitarmenn nálgast bát Diddy með vopn á lofti.
Fréttastöðin Fox11 hefur birt myndskeið þar sem sjá má nokkra einstaklinga í handjárnum en talið er að tveir þeirra handteknu séu synir Diddy, King og Justin.
Fjöldi ásakana á hendur Diddy hafa komið fram að undanförnu.
Fjögur aðskild mál voru höfðuð gegn Diddy í desember á síðasta ári og vörðuðu ásakanirnar m.a. nauðgun, mansal og líkamsárásir.
Meðal þeirra sem kærðu tónlistarmanninn eru fyrrverandi unnusta Diddy til ellefu ára, söngkonan Cassie, og fyrrum starfsmaður hans Lil Rod.
Cassie og Diddy komust að samkomulagi utan dómstóla aðeins degi eftir að hún höfðaði mál gegn honum.