Bandaríska leikkonan Christina Applegate ræddi um baráttu sína við sjálfsofnæmissjúkdóminn MS (e. Multiple Sclerosis) í nýjasta þætti hlaðvarpsins Armchair Expert undir stjórn Dax Shepard.
Applegate, sem greindist með MS-sjúkdóminn fyrir rétt rúmum þremur árum, hefur rætt opinskátt um baráttu sína í fjölmiðlum og sleppir því alfarið að sykurhúða hlutina. Leikkonan segir sjúkdóminn vera það versta sem hún hafi upplifað á ævinni.
„Ég er með 30 MS-sár í heilanum,“ útskýrði Applegate. „Stærsta sárið er staðsett á bak við hægra augað. Ég finn mikið til.“
Applegate, sem hóf leikferil sinn árið 1972 með hlutverki í sápuóperunni Days of Our Lives, segist ekki hafa upplifað sjóntruflanir eins og margir MS-greindir, en hreyfigeta leikkonunnar er takmörkuð og gengur hún með staf.
„Ég finn fyrir dofa, svima og máttleysistilfinningu,“ sagði hún þegar Shepard spurðist fyrir um einkenni og líðan leikkonunnar.
Síðasta hlutverk Applegate var í Netflix-þáttaröðinni Dead To Me sem sýnd var á árunum 2019 til 2022.