Ásdís Rán Gunnarsdóttir, ísdrottning og forsetaframbjóðandi, hefur farið víða að undanförnu í að kynna framboð sitt og safna undirskriftum.
Hún stillti sér upp með stjórnmálafólkinu Kristrúnu Frostadóttir, formanni Samfylkingarinnar, og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins.
„Til þess að gera myndina enn betri þá viðurkenni ég að þau báðu mig um mynd,“ skrifaði Ásdís Rán sem fannst greinilega lítið mál að stilla sér upp með þeim Kristrúnu og Sigmundi enda öllu vön.
Ásdís Rán sagði í nýlegu viðtali á K100 að það væri erfitt að ná tilskyldum fjölda meðmæla sem þarf til að bjóða sig fram til embættisins.
„Ég ætla ekki að ljúga eins og margir hafa gert. Ég ætla að segja að þetta sé erfitt en ég hef ekki eytt neinum peningum í þetta. Svo þetta er aðeins flóknara fyrir mig en aðra. Ég hef verið að vinna með samfélagsmiðla og að reyna að pota í fólk hér og þar,“ sagði Ásdís Rán.