Nýjasta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Ljósbrot, hefur verið valin til sýningar í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes.
Myndin verður opnunarmynd í Un Certain Regard-flokki hátíðarinnar, þar sem kvikmyndum sem sýna listræna djörfung er hampað.
Hátíðin verður haldin í Frakklandi 14. til 25. maí næstkomandi.
„Það var heill her af hæfieikaríku fólki sem gerði Ljósbrot að veruleika með dugnaði sínum og elju. Ég á ekki til orð til að lýsa því hvað ég er stoltur af okkur að hafa náð þessum áfanga,“ segir Rúnar á vefsíðu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Ljósbrot gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu. Upphefst þá rússíbanaferð tilfinninga, þar sem mörkin milli hláturs og gráts, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr. Elín Hall fer með aðalhlutverk í myndinni.