Bandaríski stórleikarinn Dick Van Dyke skráði nafn sitt á spjöld sögubókanna síðastliðinn föstudag þegar hann varð elsti leikari til þess að hljóta tilnefningu til Emmy-verðlaunanna.
Van Dyke, sem er 98 ára, hlaut tilnefningu fyrir gestahlutverk í bandarísku sápuóperunni Days of Our Lives. Fyrra aldursmetið átti leikarinn Hume Cronyn, en hann var 87 ára gamall þegar hann var tilnefndur fyrir hlutverk sitt í sjónvarpskvikmyndinni 12 Angry Men árið 1998.
Van Dyke, sem flestir þekkja úr klassísku dans- og söngvamyndinni Mary Poppins, hefur hlotið fimm Emmy-verðlaun í gegnum farsælan feril sinn, en hann hreppti verðlaun fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðunum Van Dyke and Company og The Dick Van Dyke Show.
Þrátt fyrir háan aldur er Van Dyke langt því frá hættur að njóta lífsins og leika listir sínar. Hann fór meðal annars með aukahlutverk í kvikmyndinni Mary Poppins Returns árið 2018 og söng og dansaði eins og honum einum er lagið.
Van Dyke var heiðraður fyrir framlag sitt til lista á Kennedy Center Honors árið 2021.