Kvikmyndatónskáldið og píanistinn Atli Örvarsson hlaut í kvöld bresku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin BAFTA fyrir tónlist sem hann samdi fyrir þáttaröðina Silo. Þetta eru fyrstu BAFTA verðlaun Atla.
Þættirnir voru framleiddir af AMC Studios og sýndir á Apple TV+.
Í samtali við Akureyri.net sagði hann tilnefninguna mikinn heiður. Hann hafi flutt til London fyrir einu og hálfu ári síðan til að vinna við þáttaröðina. Því sé sérstaklega ánægjulegt að uppskera þessa viðurkenningu.
Huge congratulations to Atli Örvarsson who is awarded the BAFTA for Original Music: Fiction for his work on Silo 🎼 #BAFTACraftAwards pic.twitter.com/2TFeGg0Q9m
— BAFTA (@BAFTA) April 28, 2024
Þrjú önnur voru tilfnefnd í sama flokki og Atli, það voru Natalie Holt fyrir tónlist í þáttaröðinni Loki, Blair Mowat fyrir tónlist í þáttaröðinni Nolly og Adiescar Chase fyrir tónlist í þáttaröðinni Heartstopper.
Fleiri Íslendingar hafa hlotið BAFTA verðlaunin, t.a.m. Hildur Guðnadóttir fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker, Ólafur Arnalds fyrir tónlistina í þáttunum Broadchurch, Valdís Óskarsdóttir fyrir klippingu kvikmyndarinnar The Eternal Sunshine of the Spotless Mind og Daði Einarsson fyrir tæknibrellur í The Witcher.