Atli Örvarsson tónskáld segir það mjög góða tilfinningu að hafa unnið bresku BAFTA-sjónvarpsverðlaunin í gærkvöldi í fyrsta sinn. Verðlaunin hlaut hann fyrir tónlist sína í þáttunum Silo sem hafa verið sýndir á Apple TV við góðar undirtektir.
Svo góðar reyndar að önnur þáttaröð er í undirbúningi og mun Atli einnig semja tónlistina við hana.
Með aðalhlutverkið í Silo fer Rebecca Ferguson, einnig þekkt úr Dune og Missison: Impossible. Með önnur stór hlutverk fara Rashida Jones, David Oyelowo, Common og Tim Robbins. Þættirnir eru byggðir á vinsælum bókum Bandaríkjamannsins Hugh Howey og gerast í dystópískri framtíð þar sem þúsundir manna búa neðanjarðar.
Atli segir vinsældir þáttanna að einhverju leyti mega rekja til ástandsins í heimsmálunum og áhuga almennings á því hvað gerist að loknum heimsendi.
„Önnur hver sjónvarpssería núna er um einhverjar hörmungar í framtíðinni en það sem hefur tekist mjög vel í þessari seríu er að annars vegar fjalla um stóra málið sem er framtíð mannkyns en hins vegar að gera persónulegar sögur þar sem maður tengist þessum karakterum á persónulegan hátt,” segir Atli.
Spurður út í ástæðuna fyrir því að hann var ráðinn til að semja tónlistina við þættina kveðst hann þekkja Norðmanninn Morten Tyldum sem leikstýrði fyrstu þremur þáttum Silo. Sá fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir myndina The Imitation Game fyrir áratug síðan.
Atli og Tyldum höfðu áður unnið saman að þáttunum Defending Jakob, sem komu einnig út hjá Apple TV, árið 2020.
„Hann er rosalega klár gaur en það sem er kannski fyndnast við allt saman er að við urðum upprunalega vinir því synir okkar voru saman í skóla sem smábörn í Los Angeles og þeir eru reyndar aftur komnir saman í skóla, núna í London tíu árum síðar, þannig að þetta eru skemmtilegar tilviljanir,” greinir Atli frá.
Inntur eftir því hvort hann hafi þurft að setja sig í sérstakar stellingar við að semja tónlistina við Silo segir hann tónlist ávallt þurfa að hjálpa til við að segja ákveðna sögu, sama um hvaða verkefni er að ræða. Í þessu tilfelli hafi þurft að búa til heim með framandi aðstæðum þar sem fólk búi í tanki ofan í jörðinni.
„Fyrstu hugsanirnar sem komu til mín voru einhvers konar einmanaleiki og innilokunarkennd sem myndu fylgja slíkum aðstæðum. En svo aftur um leið að segja sögu einstaklinga sem eru að díla við það að búa við þessar aðstæður. Og auðvitað er einhvers konar eymd sem fylgir því að geta ekki farið upp á yfirborðið og sjá ekki dagsljós eða náttúruna eða neitt slíkt. Þetta er frekar einmanalegt umhverfi,” svarar Atli.
Í þakkarræðu sinni í London í gærkvöldi nefndi hann uppvaxtarár sín á Akureyri sem góðan undirbúning fyrir verkefnið vegna myrkursins og innilokunarkenndarinnar á veturna. Atli tekur samt fram að hann hafi ekki verið líkja því saman að búa neðanjarðar og á Akureyri og að hann hafi sagt þetta bæði í gamni og alvöru.
Atli og fjölskylda hans fluttu einmitt frá Akureyri fyrir um einu og hálfu ári síðan til að hann gæti einbeitt sér að tónlistinni við Silo. Þau höfðu búið á Akureyri í sjö ár eftir að hafa áður verið í Los Angeles, borg englanna, í 18 ár en þar samdi Atli tónlist við hina ýmsu sjónvarpsþætti og kvikmyndir.
„Við tókum þá ákvörðun fjölskyldan að skella okkur hingað, sem við erum voða glöð með og kannski í ljósi þess að það var mikið lagt á sig til að koma og gera þessa þætti. Ég mat það þannig að það væri mikilvægt að ég væri á staðnum, nálægt leikstjóranum og nálægt tökustöðum af því að þetta er spennandi og mikilvægt verkefni,” segir hann. Þannig hafi ákveðinn metnaður fylgt því að taka að sér verkefnið og vera í leiðinni í iðunni við gerð þess.
Þrátt fyrir að hafa flutt á Akureyri frá Los Angeles á sínum tíma kveðst Atli hafa ferðast töluvert á milli. Eftir heimsfaraldurinn hafi vinnulagið hjá fólki í bransanum aftur á móti breyst og núna þyki eðlilegt að vinna tónlist sem þessa í fjarvinnu.
„En engu að síður, sérstaklega fyrstu skrefin í svona verkefnum þá er mikilvægt að vera í einhverri nánd við þá sem eru að skapa þetta og maður er í svona skapandi vinnu með.”
Spurður hvort hann hafi lengi dreymt um að vinna hin virtu BAFTA-verðlaun eftir 25 ár í bransanum segist Atli ekkert hafa spáð í það áður en hann flutti til Bretlands. Hann fór þó að leiða hugann að verðlaununum eftir að Apple TV og aðrir í kringum þættina tóku að nefna þá sem kandídat í „hringiðu verðlauna”.
„Af þessum stærri verðlaunum finnst mér BAFTA-verðlaunin fara hvað mest raunverulega eftir verðleikum frekar en kannski vinsældarkosningum. Þegar maður skoðar hverjir eru tilnefndir og hverjir eru að vinna eru það kannski ekki endilega þeir sem eru mest í sviðsljósinu. Ég upplifi það þannig að það er frekar verið að fara eftir gæðum heldur en vinsældum,” segir tónlistarmaðurinn knái.
Spurður út í næstu verkefni, fyrir utan framhald Silo, nefnir Atli tónlist sína við bandarískar Chicago- og FBI-seríur, sem hafa verið sýndar í sjónvarpi hér heima. Þáttaröðin The Darkness, upp úr Dimmu, bók Ragnars Jónassonar, er einnig á verkefnalistanum þar sem bandaríska sjónvarpsstöðin CBS og íslenska framleiðslufyrirtækið True North eru í samstarfi.
„Það er margt skemmtilegt og spennandi framundan,” segir BAFTA-verðlaunahafinn, sem skálaði að sjálfsögðu í kampavíni þegar verðlaunin eftirsóttu voru komin í höfn. Eftir það fór hann snemma í háttinn en fyrst svaraði hann þó póstum og skilaboðum héðan og þaðan þar sem hamingjuóskum rigndi yfir hann.