Nemo frá Sviss vann Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva með laginu The Code. Baby Lasagna frá Króatíu varð í öðru sæti með lagið Rim Tim Tagi Dim.
Áhorfendurnir í Malmö bauluðu þegar Ísrael kynnti dómnefndarstigin sín. Ísraelar gáfu Lúxemborg 12 stig en flytjandinn Tali er frá Ísrael.
Einnig var baulað í hvert skipti sem Ísrael fékk stig frá dómnefndum frá hverju landi fyrir sig.
Þá var baulað þegar átti að tilkynna stig almennings fyrir Ísrael en landið hlaut 323 stig og var tímabundið í fyrsta sæti, með 375 heildarstig. Í kjölfar þeirrar stigagjafar þagnaði í áhorfendum í Malmö.
Íslenska dómnefndin gaf Frakklandi 12 stig en það var Friðrik Ómar Hjörleifsson sem tilkynnti stigin.
Keppnin var sérlega umdeild í ár vegna þátttöku Ísraels í keppninni í skugga stríðsreksturs ríkisins á Gasasvæðinu.
Palestínski fáninn og varningur sem ber með sér pólitísk skilaboð var bannaður í Arena-höllinni í Malmö þegar keppnin stóð yfir.
Tilkynnt var fyrir keppnina að hver sá sem reyndi að koma inn í höllina með palestínskan fána eða varning sem hefði pólitísk skilaboð yrði stöðvaður við innganginn.
Haldnir voru samstöðutónleikar með Palestínu í Háskólabíói á sama tíma og fyrri undankeppnin fór fram á þriðjudagskvöldið.
Falastinvision var svo haldin í Bíó paradís í kvöld á sama tíma og Eurovision fyrir þau sem vildu sniðganga keppnina.
Heilbrigðisyfirvöld á Gasa telja að um 35.000 Palestínumenn hafi fallið í árásum Ísraelshers sem hafa staðið yfir frá 7. október í fyrra.