„Þetta er bara mjög súrrealískt,“ segir Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir en poppstjarnan Ariana Grande deildi myndbandi af henni syngja lagið we can’t be friends á Instagram-reikningi sínum.
Hrafnhildur, sem gengur undir listamannanafninu Raven, birti myndband af sér syngja lag Ariönu við ýmsar daglegar athafnir á TikTok-reikningi sínum. Vakti myndbandið talsverða athygli og hlaut Hrafnhildur 23.000 fylgjendur á miðlinum fyrir vikið.
„Það nær bara miklu flugi þarna einhverjum dögum eftir og verður að einhverju leyti „viral“ eins og sagt er,“ segir Hrafnhildur í samtali við mbl.is.
Kveðst Hrafnhildur síðar hafa deilt sama myndbandi á Instagram en í gærmorgun hafi hún séð að átrúnaðargoðið sjálft hafði deilt myndbandinu í story á Instagram.
„Hún er af og til að birta eitthvað af aðdáendum sínum sem eru að gera eitthvað við lögin hennar, og ég sé þá að hún er búin að birta myndbandið mitt og skrifa „fallegt“ við það,“ segir Hrafnhildur.
„Það er bara ótrúlegt að manneskja sem ég er búin að líta upp til í mörg ár og fylgjast með allan þennan tíma viti að ég sé til og hafi heyrt mína rödd,“ segir hún innt eftir sínum fyrstu viðbrögðum.
Aðspurð kveðst Hrafnhildur hafa sungið síðan hún man eftir sér. Hún hafi síðan unnið Söngvakeppni framhaldsskólanna með hljómsveitinni Náttsól árið 2016, með leikkonunni Elínu Hall og tónlistarkonunni Guðrúnu Ólafsdóttur, einnig þekkt sem ЯÚN.
Gaf hún sína fyrstu EP-plötu undir nafninu RAVEN árið 2021 og hefur gefið frá sér nokkur lög síðan, þar á meðal lögin Right? og Handan við hafið árið 2023.
Myndbandið sem sló í gegn var aftur á móti alls ekki planað að sögn Hrafnhildar og kom það henni því eilítið á óvart að það skyldi gera það með þessum hætti.
„Þetta var mjög spontant miðað við aðrar ábreiður sem hef ég tekið upp,“ segir hún.
„Ég var svona með þessa hugmynd í kollinum því ég hef séð þetta gert áður, þar sem fólk er með lag á heilanum og tekur sig upp þar sem það er að syngja það í athöfnum daglegs lífs. Ég ætlaði í raun og veru ekkert að pósta þessu.“
Segir hún viðbrögðin ekki hafa staðið á sér og að hún hafi öðlast fjölda fylgjenda vegna myndbandsins og fengið skilaboð í kjölfarið. Vinir hennar og fjölskylda séu afar spennt fyrir hennar hönd og segir Hrafnhildur foreldra sína, sem ekki eru sjálf á TikTok, sífellt spyrja hversu mörg áhorf hún sé komin með.
„Vinkona mín sagði við mig í gær: Ímyndaðu þér hvað heimurinn er orðinn lítill að ein stærsta poppstjarna í heimi hafi séð vídeó af þér.“
Hvað taki við næst segir hún erfitt að geta sér til um en bróðir hennar hafi þó skorað á hana að halda áfram að birta myndbönd sem hún hyggist gera.
„Það er spurning hvað taki við, maður veit eiginlega ekki hverju maður á að pósta næst."