Lögeglan í Los Angeles hefur hafið rannsókn á dauða Friends-leikarans Matthew Perry.
Perry lést í október á síðasta ári vegna bráðra áhrifa ketamíns en lögregla rannsakar nú hvernig Perry hafi komst yfir efnið samkvæmt BBC.
Ketamín er sterkt svæfingar- og deyfilyf sem einnig getur kallað fram ofskynjanir og er því sömuleiðis notað sem vímuefni. Hefur það einnig notið aukinna vinsælda á síðustu árum til að vinna bug á áfengissýki og geðrænum kvillum eins og þunglyndi.
Í yfirlýsingu til fjölmiðla staðfesti lögreglan í Los Angeles að rannsóknin væri unnin í samstarfi við fíkniefnalögreglu og bandaríska pósteftirlitið. Ekki er vitað hversu langt rannsóknin er komin eða hverjir hafi verið yfirheyrðir í tengslum við hana.
Eru nokkrir aðrir þættir sagðir kunna hafa átt þátt í dauða Perry svo sem drukknun, kransæðasjúkdómur og áhrif búprenorfíns sem Perry notaði gegn ópíóðafíkn.
Hafði Perry lengi glímt við áfengis- og vímuefnafíkn á fullorðinsárunum og oft leitað sér aðstoðar meðferðaraðila.
Var hann í ketamínmeðferð, undir eftirliti læknis, við kvíða og þunglyndi er hann lést. Í skýrslu réttarmeinafræðings segir þó að læknir Perry hafi ekki veitt honum ketamínmeðferð í yfir eina og hálfa viku er hann lést og því óljóst hvaðan hann hafi fengið svo mikið magn ketamíns.