Bjarni Benediktsson forsætisráðherra steig létt dansspor með heimamönnum í Malaví í gærkvöldi. Á fóninum var ekta íslenskt hipp hopp úr smiðju Herra hnetusmjörs.
Bjarni birti myndskeið af gleðskapnum á Instagram.
„Í lok ferðar var 35 árum af þróunarsamvinnu fagnað með mat og tónlistaratriðum. Þjóðsöngurinn átti sinn stað. Ísland ögrum skorið var sungið af kór heimamanna, á íslensku! Hákarl, harðfiskur, sviðasulta og brennivín vöktu mismikla lukku heimafólks, en tónlistin öllu meiri. Svo vinsæll var Kópavogsbúinn Herra hnetusmjör að góður hópur Ngoni-fólks og drjúgur hluti ríkisstjórnar Malaví tók ekki annað í mál en að stíga saman við hann endurtekinn dans. Ég leyfi mér að láta afraksturinn fylgja.“