Tónlistarbransinn vestanhafs er í þann mund að tilkynna mannshvarf en tónlistarkonan Giselle Knowles-Carter, betur þekkt sem Beyoncé, hefur lítið sem ekkert sést opinberlega eftir að nýjasta plata hennar Cowboy Carter kom út fyrir um tveimur mánuðum.
Eðli málsins samkvæmt þykir þetta afar óvenjulegt þar sem nýja kántrí-platan hefur nú þegar sprengt alla vinsældarlista í Bandaríkjunum.
Heimildarmaður segir að ástæðan gæti verið sú að Beyoncé og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn Shawn Corey Carter, betur þekktur undir sviðsnafninu Jay-Z, séu að láta lítið fyrir sér fara á meðan réttarhöldum rapparans Sean Diddy Combs standa yfir. Rapparinn hefur verið vinur stjörnuparsins til margra ára en hann hefur fengið á sig átta kærur frá því í nóvember síðastliðnum.
Hann bætir við að síðustu vikur hefðu átt að vera tíminn fyrir Beyoncé til að láta ljós sitt skína og kynna nýju kántrí-plötuna sína.
„Þetta átti að vera tími Beyoncé, með sína stórkostlegu kántrí-plötu sem lengi hafði verið beðið eftir og kom út fyrir aðeins tveimur mánuðum. Síðan þá hefur hún hvergi verið sjáanleg. Platan er á hraðri leið niður vinsældalista og Jay Z og Beyoncé láta ekki sjá sig í sviðsljósinu,“ segir hann.
Platan virtist hafa alla burði til að ná stórkostlegum árangri en með Beyoncé syngja fleiri stórstjörnur á plötunni á borð við Dolly Parton, Willie Nelson og Miley Cyrus. Hingað til virðist platan ekki eins mikill „hittari“ líkt og margir bjuggust við.
„Það er eitthvað í gangi. Platan kom út með látum. Númer eitt alls staðar. Nú hefur bæði hún og platan horfið,“ segir heimildarmaðurinn.
Beyoncé hefur slegið hvert metið á fætur öðru í tónlist en enginn í sögunni hefur unnið jafn mörg Grammy-verðlaun og hún, 32 talsins. Hins vegar hefur tónlistarkonan aldrei unnið plötu ársins en vinningslíkur hennar minnka með hverjum deginum þar sem ekkert er að frétta í markaðssetningu plötunnar.