Hljómsveitin Kaleo gefur í dag út lagið Sofðu unga ástin mín sem er angurvær vögguvísa sem flest börn þekkja.
Þetta kemur fram í tilkynningunni frá hljómsveitinni.
„Mér hefur alltaf fundist þessi vögguvísa vera ákaflega falleg með sínum dapurlega undirtón og hefur hún alltaf haft mikla þýðingu fyrir mig. Móðir mín söng þetta lag fyrir mig sem barn og ég er nokkuð viss um að þetta er fyrsta lagið sem ég heyrði. Mig langaði því að gefa lagið út á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga enda er þessi vögguvísa eins íslensk og þær geta orðið,“ er haft eftir Jökli Júlíussyni, söngvara, gítarleikara og lagahöfundar í Kaleo.
Kaleo hitaði upp fyrir Rolling Stones í vikunni í bandarísku borgunum New York og Philadelphia. Hljómsveitin mun í framhaldinu hefja tónleikaferðalag sitt um Norður-Ameríku og Evrópu sem standa mun allt þetta ár.