Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake var ofurölvi á hótelbar í Hamptons rétt áður en hann var handtekinn á aðfaranótt þriðjudags. Timberlake var handtekinn fyrir að keyra undir áhrifum áfengis.
„Hann var ofurölvi. Á einum tímapunkti, rétt fyrir lokun, fór einhver á klósettið og skildi drykkinn sinn eftir á borðinu,“ sagði sjónarvottur við vefmiðilinn New York Post. „Þegar maðurinn kom til baka var Timberlake að drekka drykkinn.“
Timberlake var seinna stöðvaður af lögreglu fyrir að keyra undir áhrifum. Hann sagði lögreglu að hann hefði bara fengið sér einn martini-kokteil. Samkvæmt lögregluskýrslu neitaði hann þrisvar að blása. Þegar hann gerði það loksins féll hann á prófinu.
„Þetta á eftir að eyðileggja tónleikaferðalagið,“ á Timberlake að hafa sagt við lögregluna.
Eiginkona Timberlake, leikkonan Jessica Biel, var ekki með honum þegar atvikið átti sér stað. Hún var á Manhattan í New York-borg í tökum þegar Timberlake fékk sér aðeins of mikið að drekka.