Það vakti athygli á síðasta ári þegar tökur á kvikmyndinni Ljósvíkingar hófust á Ísafirði, en þar er sögð þroskasaga trans konu á Vestfjörðum sem starfar í sjávarútvegi. Kvikmyndin er væntanleg í kvikmyndahús í haust og nú hefur stikla úr henni verið gefin út.
Ljósvíkingar fjallar um æskuvinina Hjalta og Björn sem reka fiskveitingastað í heimabæ sínum yfir sumartímann. Þegar þeir fá óvænt tækifæri til að hafa veitingastaðinn opinn árið um kring tilkynnir Björn að hún sé trans kona og muni framvegis heita Birna. Þessar breytingar reyna á vináttuna og þurfa þau bæði að horfast í augu við lífið á nýjan hátt til þess að bjarga því sem mestu máli skiptir.
Leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar, Snævar Sölvason, er fæddur í Bolungarvík og ólst þar upp. Hann kláraði háskólapróf í fjármálaverkfræði áður en hann ákvað að elta draum sinn og læra kvikmyndagerð og hefur nú gefið út nokkrar myndir, þar á meðal Eden og Albatross.
Aðalhlutverk myndarinnar fara þau Björn Jörundur Friðbjörnsson, Arna Magnea Danks, Sólveig Arnarsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir með. Þá fara Helgi Björnsson, Hjálmar Örn Jóhannsson, Vigdís Hafliðadóttir, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Pálmi Gestsson og Gunnar Jónsson einnig með hlutverk í myndinni.
Framleiðandi myndarinnar er Kvikmyndafélag Íslands, sem er framleiðandi fjölda kvikmynda, en þar á meðal má nefna Veggfóður, Strákana okkur, Astrópíu, Vonarstræti og Lof mér að falla.
Í ársbyrjun 2023 fór Snævar í viðtal hjá mbl.is þar sem hann sagði frá því hvernig hann yfirgaf fjármálaheiminn fyrir kvikmyndagerð. Hann segir einnig frá því hvernig hann fylltist innblæstri í fiskvinnslu eftir að hafa snúið aftur heim til Bolungarvíkur en þess má geta að aðalpersónur Ljósvíkinga starfa í sjávarútvegi.
„Þegar þessu tímabundna starfi mínu hjá Seðlabankanum lauk hélt ég áfram að skrifa, án þess að hafa einhverja áætlun um framhaldið. Þannig liðu nokkrir mánuðir og fljótlega var ég kominn í peningavandræði, með jólin á næsta leiti. Ég fór því aftur heim til Bolungarvíkur og fékk vinnu í fiskvinnslunni eins og maður gat alltaf gert ef mann vantaði pening með hraði. Þar fæ ég svona rosalega mikinn innblástur og ég sá hvernig staðurinn var tilvalið sögusvið fyrir litla kvikmynd,“ sagði Sævar í viðtalinu, en úr varð að hann gerði sína fyrstu kvikmynd, Slægingameistarana, um dag í lífi ungra manna sem vinna við að slægja fisk.
Fréttin var leiðrétt um hvar tökur hófust og nöfn á fyrri kvikmyndum framleiðenda.