Leikarinn Ben Affleck flutti muni sína úr rúmlega átta milljarða króna glæsivillu þeirra Jennifer Lopez leikkonu á meðan hún var á Ítalíu með vinum sínum.
Eftir Ítalíuferðina tók kaldur raunveruleikinn við Lopez og virðast hjónabandserfiðleikar þeirra Affleck vera í hæstu hæðum. Um þessar mundir leigir Affleck hús í Brentwood-hverfinu í Los Angeles, skammt frá heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar Jennifer Garner en þau eiga saman þrjú börn, þau Violet, Seraphinu og Samuel.
Heimildarmaður segir að líklega sé að samband Lopez og Affleck muni ekki endast mikið lengur. Hann bætir við að leikkonan hafi fengið nóg og hún geti ekki meir því sambandið virðist aðeins vera að versna.
Lopez virðist vera að halda sér jarðbundinni í gegnum hjónabandsrússíbanann en hún sást með dóttur sinni Emme að borða hádegismat í Beverly Hills í Los Angeles í gær. Hún er sögð vera að gera það besta úr stöðunni með því að huga að framtíðarmarkmiðum sínum ásamt því að verja sem mestum tíma með tvíburum sínum Max og Emme sem hún átti með fyrrverandi eiginmanni sínum Marc Anthony.