Sirkus Íslands snýr aftur

Sirkustjaldið Jökla verður uppi aðeins eina helgi í Vatnsmýrinni frá …
Sirkustjaldið Jökla verður uppi aðeins eina helgi í Vatnsmýrinni frá 12. til 14. júlí. Ljósmynd/Aðsend

Eftir fimm ára fjarveru snýr Sirkus Ísland aftur með sirkustjaldið Jökla í Vatnsmýrina frá 12. til 14. júlí. Sirkusinn býður upp á sýningar fyrir bæði börn og fullorðna aðeins þessa einu helgi en gestir mega búast við sannkölluðu sjónarspili. 

Ástarsaga Lee Nelson og Öldu Brynju Birgisdóttur varð til þess að Sirkus Íslands fór af stað en þetta mikla ævintýri þeirra heldur nú áfram. 

Sirkustjaldið Jökla kom fyrst til landsins frá Ítalíu árið 2014 en þarlendir sirkustjaldameistarar hönnuðu og saumuðu tjaldið. Tjaldið var að hluta til fjármagnað af styrktarsjóðnum Karolina Fund sem hefur aðstoðað fjölmarga íslenska listahópa að koma hugmyndum sínum á framfæri í gegnum tíðina. 

Tjaldið er engin smásmíði þar sem það tekur einn til tvo daga að setja það upp með tíu manna áhöfn. Þar að auki tekur þrjá daga til viðbótar að gera tjaldið klárt að innan fyrir sirkussýningar. Áður en líður að löngu er skyndilega risið upp lifandi leikhús með öllu þar sem ljós, svið, áhorfendapallar og sirkustöfrar skapa ógleymanlega upplifun sirkusgesta. 

Þar sem það styttist óðum í að sýningar hefjist er tilvalið að kynnast sirkusmeðlimum hér að neðan. 

Lee Nelson – Lee er Stofnandi Sirkus Íslands. Hann kom til landsins alla leið frá Ástralíu, varð ástfanginn af landi, þjóð og einni konu. Settist hér að og stofnaði sirkus.

Alda Brynja – Alda Brynja Birgisdóttir var búin að mennta sig sem líffræðingur og kennari þegar hún hitti Lee Nelson, trúð frá Ástralíu, og þau giftust. Saman stofnuðu þau Sirkus Íslands sem þau reka enn í dag. Hún er húlladansmær og elskar að hringsnúast á sviðinu með hringina sína. Alda er einnig afburða andlitsmálari og bregður sér oft í hlutverk ýmissa fígúra og birtist á skemmtunum svo sem trúður, Marilyn Monroe eða sem hafmeyja. Alda endaði óvænt í sirkus en hefur elskað það ævintýri sem henni var hreinlega hrint út í.

Sirrý – Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir gekk ung til liðs við Æskusirkusinn, eða þegar hún var átta ára gömul og kolféll þar fyrir línudansi. Hún hefur dansað línuna síðan og er enn ástfangin 11 árum síðar. Sirrý bjó í Þorlákshöfn og foreldrar hennar skutluðu henni alltaf á æfingar svo hún fengi að ganga á línunni. Pabbi hennar endaði á að smíða hennar eigin línu svo hún gæti líka æft sig í bílskúrnum heima. Síðar var Sirkus Unga fólksins stofnaður út frá hópnum í Æskusirkusnum sem Sirrý tók þátt í. Síðar stofnuðu vinkonurnar úr Æskusirkusnum Sirkus Karnival sem hefur staðið fyrir sínum eigin sýningum. Við erum svo glöð að fá eina með okkur í sýninguna sem byrjaði vegferðina í Æskusirkusnum okkar.

Nonni – Jón Sigurður Gunnarsson er tónlistamaður og margverðlaunuð fimleikahetja. Hann keppir með landsliði Íslands í fimleikum og hefur lokið námi við FÍH. Einhvers staðar þess á milli er hann rómuð sirkusstjarna sem kallar ekki allt ömmu sína! Hangandi í hlekkjum eða á hvolfi á höndum tveimur. Nonni er hreint magnað kraftabúnt!

Mathias Goed – Mathias Goed er sonur sirkusstjóra og trúðs í Nýja-Sjálandi. Fjölskyldan hans á sirkustjald þar í landi og ferðast hún um á sumrin og setur upp sýningar víðs vegar um landið. Níu ára gamall var hann farinn að koma fram á sýningum fyrst í Whirling Bros circus sem var síðasti sirkusinn til að hafa dýr í Nýja-Sjálandi. Mathias kom hingað til Íslands þegar hann var 19 ára og sirkustjaldið Jökla var þá glænýtt. Hann hafði mikla reynslu við að setja upp sirkustjöld svo hann gat hjálpað og kennt öðrum að setja upp Jökla. Síðan hefur hann komið hingað árlega að rækta vinasambönd sín og sirkuslistina. Þess á milli ferðast hann um heiminn og sýnir sirkus!

Nicole Maisey – Nicile er kærasta Mathiasar og hefur gríðarlega mikla reynslu á sirkussýningum. Hennar sérgrein í sirkus eru loftfimleikar, fettur og brettur og að hanga á hárinu! Hún hefur meðal annars komið fram með Aotearoa-sirkusnum í stóru sirkustjaldi, sýnt listir sínar á skipi með nýsjálenska sirkusnum Cirque Lemuria og er meðal fremstu listamanna í sýningarbransanum á Nýja-Sjálandi en skrautlegar sýningar hennar seljast alltaf upp. 

Axel Diego – Er listmenntaði trúðurinn okkar. Axel elskar að halda jafnvægi á hlutum og að búa til blöðrulistir. Hann fer hvert sem er gjarnan á einhjóli. Það má búast við að einhverjar kúnstir verði framkvæmdar svo sem að halda jafnvægi á flöskum eða búa til blöðrupáfagauk á öxlina þína. Axel hefur einbeitt sér mikið að eldlistum undanfarin ár. Aukavinna hans er listamaðurinn Perró sem fer í fullorðinspartí, mikið í gæsanir og málar með sínum mjög svo persónulega pensli.

Lilja Salome - Lilja Salóme Hjördísardóttir Pétursdóttir er nýútskrifaður sjúkraþjálfari með trúðshjarta sem elskar að snúast á hvolfi. Hún byrjaði að æfa á súlu fyrir 15 árum og færði sig svo yfir í loftfimleika. Lilja hefur kennt og sýnt á súlu, lýru, hammok og núna duo hammok þar sem hún og Lauren snúast í kringum hvor aðra í hvorri silkirólunni fyrir sig og reyna að forðast að fá rassinn á hvor annarri í höfuðið.

Lauren - Lauren Charnow kemur frá Ameríku. Hún varð ástfangin, settist að á Íslandi og stofnaði Kria Aerial Arts sem er fyrsti loftfimleikaskólinn sem hefur aðeins það markmið að kenna loftfimleika. Hún hefur æft loftfimleika í yfir 14 ár og starfað mikið innan Æskusirkusa í Ameríku. Fjölskyldan hennar er mikið leikhúsfólk þannig að frá unga aldri upplifði hún töfra leikhússins beint í æð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er allt svo laust í reipunum hjá þér. Þú hefur látið margt reka á reiðanum en nú verður ekki hjá því komist að taka málin föstum tökum. Leitaðu hjálpar ef með þarf.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Torill Thorup
4
Yrsa Sigurðardóttir
5
Sarah J. Naughton
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er allt svo laust í reipunum hjá þér. Þú hefur látið margt reka á reiðanum en nú verður ekki hjá því komist að taka málin föstum tökum. Leitaðu hjálpar ef með þarf.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Torill Thorup
4
Yrsa Sigurðardóttir
5
Sarah J. Naughton