Stjörnuhjónin David og Victoria Beckham rifjuðu upp brúðkaupsdaginn í tilefni af 25 ára brúðkaupsafmæli sínu. Parið gekk í það heilaga við glæsilega og íburðarmikla athöfn þann 4. júlí 1999.
Brúðkaupið vakti heilmikla athygli víðs vegar um heim en það sem vakti þó sérstaka athygli var veisluklæðnaður Beckham-hjónanna, en þau mættu til veislunnar í stíl, klædd fjólubláum spariflíkum. Elsta barn hjónanna, Brooklyn, sem þá var nokkurra mánaða gamall, var einnig í stíl við foreldra sína, klæddur fjólubláum jakkafötum og með kúrekahatt í sama lit sem setti punktinn yfir i-ið.
Í tilefni af silfurbrúðkaupinu mátuðu hjónin fjólubláu spariflíkurnar, sem smellpassa 25 árum síðar, og deildu sætri myndaseríu með fylgjendum sínum á Instagram.